150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

jafnt atkvæðavægi.

[16:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um jafnrétti í kosningum og höfum farið út um víðan völl hérna. Það sem er kannski furðulegast er uppstillingin landsbyggð gegn höfuðborg. Ég held að hún sé í gegnum einhverja rörsýn fjórflokksins sem hefur stjórnað hérna og komið þessu kerfi á. Ég tel mig ekki bara þingmann Kragans og ekkert fyrir landsbyggðina. Ég á systkini, ættingja og vini úti um allt land og ég held að það sé kominn tími til að við þorum að horfast í augu við það og segja hreinlega að við séum að og eigum að berjast fyrir alla landsmenn. Það er grundvöllurinn í þessu. Við verðum líka að horfast í augu við það, eins og hefur komið fram í tölfræðinni, hversu rosalega mörg atkvæði detta niður dauð. Horfum á Kragann versus Suðurland þar sem er nærri því helmingur. Annar aðili er með 70.000 manns á bak við sig, hinn 36.000. Annar fær tíu þingmenn, hinn fær 13. Þarna liggur við að ætti að vera 20 á móti tíu.

Þetta köllum við jafnrétti og lýðræði. Þetta getur ekki staðið svona og á ekki að vera svona, að maður tali um að erfitt sé að ræða þetta og fari í skotgrafir um hvort maður hagnast eða tapar atkvæðamagni við að fá lýðræði. Mér gæti ekki verið meira sama. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst einfaldlega um að lýðræðishugsunin sé rétt, að allir séu jafnir.

Ég segi fyrir mitt leyti eins og hefur komið hérna fram: Myndum við sætta okkur við að þeir sem eru í Kraganum borgi fulla skatta en þeir sem eru í Norðvesturkjördæmi borgi hálfa skatta á við þá? Nei, við myndum aldrei sætta okkur við það. Þess vegna eigum við ekki að sætta okkur við að það sé hálft atkvæði í Kraganum á móti heilu annars staðar.