150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[17:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Viðfangsefnin eru vissulega margslungin og það eru margir áhrifaþættir og angar í umræðu af þessu tagi. Mig langar til að nefna hér þætti sem sjálfsagt eru sambland af almannavörnum og þjóðaröryggismálum, tengjast samfélagsbreytingum sem hafa orðið á undanförnum árum. Hæstv. forsætisráðherra nefndi samfélagslega vá sem við þurfum að skoða af meiri alvöru. Ég held að það sé einn þáttur í þessu líka sem er mjög athyglisvert að velta fyrir sér og það eru viðbrögð almennings þegar einhvers konar vá ber að höndum. Samfélagið hefur breyst svo mikið að jafnan koma upp ýmiss konar kenningar, ýmiss konar fullyrðingar, upphrópanir og jafnvel falsfréttir, þar sem reynt er með einum eða öðrum hætti að grafa undan því sem gert er. Þetta getur verið mjög varasamt og erfitt viðfangs því að vissulega getur verið þröngur stígur á milli þess að menn verði að taka eðlilegri og sanngjarni gagnrýni og athugasemdum en síðan getur þetta haft veruleg áhrif á það hvernig samfélagið bregst við aðsteðjandi hættu eða viðfangsefnum. Við sjáum um þetta mjög gott dæmi núna þeirra Covid-veiran herjar á okkur. Þá stendur ekki á því að sjálfskipaðir sérfræðingar þykist vita manna best og fullyrða ýmislegt sem betur væri ósagt og hjálpar ekki við að takast á við þann vanda sem er verið að reyna að leysa.