150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[17:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vildi bara taka það fram, eins og hv. þm. Bergþór Ólason gerði, að málið mun ganga til nefndar milli 2. og 3. umr. Þar verður fjallað um álitamál sem upp hafa komið og m.a. var vakin athygli á hér í umræðum í gær. Ég lít ekki svo á að að skilja beri orð hv. þm. Bergþórs Ólasonar svo að hann telji að ekki hafi átt sér stað efnisleg umræða um málið í nefndinni fram til þessa. Ég kýs að skilja hann ekki með þeim hætti, enda væri það mjög röng lýsing á starfi nefndarinnar sem auðvitað hefur farið yfir álitamál og ýmsa þætti hvað þetta varðar.

Hins vegar þykir okkur sem í nefndinni sitjum alveg tilefni til að fara aftur yfir nokkra þætti sem hér var getið um í umræðum í gær og munum að sjálfsögðu gera það og kalla til gesti eftir því sem þörf krefur. (Forseti hringir.) Hins vegar held ég að þeir sem þekkja til starfs nefndarinnar viti að auðvitað hefur átt sér stað afar góð efnisleg umfjöllun nú þegar sem mun svo skila sér í endanlegri afgreiðslu málsins.