150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar.

332. mál
[17:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það skiptir einmitt máli, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á áðan, hvað menn gera en ekki endilega hvað þeir segja. Það sem ég benti á áðan er að undirliggjandi í þessu er kannski meira flaustur og þörf fyrir að sýna að eitthvað sé verið að gera til einföldunar í staðinn fyrir að ganga þannig til verks að verulegt gagn sé að. Ég kom einmitt inn á það áðan að við styddum markmiðin sem eru undirliggjandi í frumvarpinu en hér virðast menn vera að flýta sér svo mikið að ekki sé skynsamlega á haldið. Það er það sem ég gagnrýni hér og við í Miðflokknum höfum í engu hvikað frá því að við eigum að leita einföldunar regluverks og vinna að því að minnka báknið. (Gripið fram í: Hvar þá?) Í þessu máli er það að gerast meira á forsendum hroðvirknislegri vinnubragða og þess að getað hakað í box í stað þess að draga (Forseti hringir.) hagaðila að borðinu og leita þeirra leiða sem þeir telja skynsamlegar til að einfalda regluverksumhverfi þeirra sjálfra.