150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[17:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á og tel óhætt að segja að þetta sé, já, hluti af aðgerðum stjórnvalda þegar kom að því að undirrita þá samninga. Þau atriði sem sérstaklega voru þar nefnd voru að skoða hvort breyta ætti fyrirkomulagi undanþágna frá bannákvæðum laganna, sem er hér gert þannig að þau séu sjálf að meta hvort skilyrði undanþágu séu til staðar, að veltumörk tilkynningarskyldra samruna yrðu endurskoðuð og horft til hækkunar þeirra, og það er gert og þau hækkuð, og lagðar voru til breytingar á málsmeðferð samrunamála sem væru til þess fallnar að einfalda hana með því að einfalda styttri tilkynningar um samruna og það er gert í frumvarpinu ásamt auðvitað fleiri atriðum. Það er ekki þannig að öll þau atriði sem hér eru lögð til breytingar á hafi verið hluti af aðgerðum stjórnvalda í þessu samtali en endurskoðun samkeppnislaganna, með sérstöku tilliti til þeirra þátta sem ég taldi hér upp, er liður í þeim aðgerðum sem stjórnvöld nefndu sérstaklega og áttu sinn þátt í því að lífskjarasamningarnir voru gerðir.