150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[17:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Nú var frumvarpið í samráðsgáttinni í haust og þar komu inn nokkuð margar umsagnir og allar mjög gagnrýnar. Ein umsögnin er frá ASÍ sem áskildi sér rétt að koma með frekari umsagnir fyrir nefndina þegar málið yrði unnið í þinginu. En þar segir, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands leggst alfarið gegn fyrirætlunum stjórnvalda um breytingar á samkeppnislögum sem veikja Samkeppniseftirlitið og draga úr getu samkeppnisyfirvalda til þess að stöðva samkeppnislagabrot og gæta þar með hagsmuna alls almennings gagnvart fyrirtækjum á markaði.“

Með þessari stuttu umsögn gefur ASÍ sannarlega í skyn að þau séu ekki ánægð með þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra segir að sé að einhverju leyti partur af að lífskjarasamningunum.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, var þetta frumvarp í samráðsgáttinni og inn komu margar umsagnir þar sem frumvarpið er gagnrýnt. Það er aðeins tekið tillit til einnar gagnrýni, einfaldlega vegna þess að hefði sú grein verið áfram í frumvarpinu hefði það verið brot á EES-samningnum. En það er ekki tekið tillit til neins annars. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji í raun ekkert gagn af því sem kemur fram í samráðsgáttinni og hvort hún virki ekki eins og hún á að gera og stjórnvöld ætli sér í rauninni ekki að taka mark á því sem þar kemur fram.

Herra forseti. Ég vil segja að þetta frumvarp, sem ég hef ýmislegt við að athuga, verður sannarlega gaumgæft vel í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.