150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Já, það er athyglisvert að sjá, miðað við þær hörðu umsagnir sem þetta frumvarp fékk í samráðsgátt stjórnvalda, að nær engar breytingar eru gerðar á því frá samráðsgáttinni og þar til það kemur hér fyrir þingið. Hæstv. ráðherra sagði: Eitt er að hlusta og annað er að hlýða. Það er nefnilega svo, sem gleymist oft í umræðu um Samkeppniseftirlitið og samkeppnismál, að það eru ekki hagsmunir stærstu fyrirtækjanna sem skipta þar mestu máli heldur hagsmunir neytenda og smærri fyrirtækjanna. En það heyrist oft talsvert lægra í röddum þeirra en í röddum stærstu fyrirtækjanna, sérstaklega á markaði eins og okkar sem einkennist mjög af fákeppni. Það er skiljanlegt og eðlilegt ástand að mörgu leyti í fámennu þjóðfélagi á smáum markaði en það gerir þörfina fyrir öflugt og gott samkeppniseftirlit enn ríkari. Margt er til bóta í þessu máli en margt er líka verulega íhugunarvert, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið, og ég get ekki annað en tekið undir gagnrýni þeirra sem segja að í mörgum þeirra ákvæða sem hér er að finna sé verið að veikja Samkeppniseftirlitið. Sú gagnrýni kemur frá Samkeppniseftirlitinu sjálfu, frá Neytendasamtökunum, frá Alþýðusambandinu, frá fyrrverandi formanni Samkeppniseftirlitsins, mjög harðorð og skelegg gagnrýni á áform stjórnvalda í þessum efnum. Þess vegna hefði ég áhuga á að heyra nánar frá hæstv. ráðherra, af því að ég þekki mörg af þeim áhersluatriðum sem er að finna í frumvarpinu úr hagsmunabaráttu aðila eins og Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs og margt er þar gaumgæfnivert. En hvar eru áherslur og raddir Neytendasamtakanna? Hvert er samráðið sem haft var við Neytendasamtökin við endurskoðun á þessum lögum? Hvert er samráðið sem haft var við Samkeppniseftirlitið sjálft við endurskoðun á þessum lögum? Ég hygg að varðandi flesta aðra eftirlitsaðila á markaði væri ekki ráðist í endurskoðun á lagaumgjörð slíks eftirlits án víðtæks samráðs við eftirlitsaðilana sjálfa.