150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þegar maður les frumvarpið yfir, þegar maður les upprunalegt frumvarp sem fór fyrir samráðsgáttina yfir, þó að ég geti tekið undir margt af því sem þar er verið að gera, er vandinn sá, ætla ég bara að fullyrða, að þetta er mjög einhliða endurskoðun á samkeppnislöggjöfinni. Hún horfir fyrst og fremst til þeirrar gagnrýni sem komið hefur frá stærstu fyrirtækjum á markaði. Ekki er þar með sagt að ekki eigi að hlusta á þá gagnrýni og ekki er þar með sagt að sú gagnrýni geti ekki verið fagleg en það vantar tilfinnanlega sjónarmið neytenda, sjónarmið Samkeppniseftirlitsins sjálfs, og það verður ekkert undan því vikist að það er verið að veikja Samkeppniseftirlitið. Það er verið að taka forvirkar heimildir af eftirlitinu. Það er verið að grípa inn í þætti, bæði í 16. gr. og víðar, og ég get ekki túlkað það með neinum öðrum hætti en að vera sammála umsögn Samkeppniseftirlitsins sjálfs og Neytendasamtakanna, um að verið sé að veikja eftirlitið.

Ég spyr: Hefði ekki verið eðlilegra í jafn mikilvægri löggjöf — því að oft gerum við það nú þegar við ætlum að vanda okkur — að setja á laggirnar þverfaglega nefnd þar sem Neytendasamtökin, fulltrúar Samkeppniseftirlitsins, fulltrúar Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs o.s.frv. hefðu átt sína fulltrúa þar sem hægt hefði verið að fara með vönduðum hætti yfir málið. Það má alveg nefna að við erum með í pípunum Evróputilskipanir á sviði neytendaréttar þar sem verið er að skerpa á ákvæðum um samkeppniseftirlit innan Evrópusambandsins, m.a. tilskipun frá 2014 sem búið er að innleiða alls staðar nema á EES-svæðinu sem hefði verið hægur vandi að taka inn í þessa endurskoðun en var ekki gert.

Þess vegna endurtek ég: Þetta er allt of einhliða (Forseti hringir.) endurskoðun á samkeppnislöggjöfinni og tekur fyrst og fremst mið af hagsmunum stærstu fyrirtækjanna sem eðli máls samkvæmt kvarta hvað mest undan virku samkeppniseftirliti.