150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Svo að það sé tekið strax fram þá er margt í þessu máli til bóta. Það var orðið tímabært að endurskoða viðmiðunarfjárhæðir í samrunum. Það er fullkomlega eðlilegt að tímabinda skipunartíma forstjóra Samkeppniseftirlitsins en í því samhengi má líka taka undir það sem kom fram í umsögn m.a. fyrrverandi formanns stjórnar Samkeppniseftirlitsins í samráðsgáttinni, Gylfa Magnússonar, að það mætti líka skerpa á þeim hæfiskröfum sem gerðar eru til stjórnarmanna Samkeppniseftirlitsins. Við þeirri mjög svo málefnalegu athugasemd var ekki brugðist, frá samráðsgátt yfir í umræðu í þinginu.

Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af í þessu er að það er verið að veikja eftirlitið. Það er gegnumgangandi stef í þessu. Það hefur verið mjög hörð gagnrýni á Samkeppniseftirlitið á undanförnum árum. Margt af þeirri gagnrýni á fullkomlega rétt á sér. Það er eðlilegt að Samkeppniseftirlitið horfi meira til t.d. leiðbeinandi þáttar í starfsemi sinni en það hefur gert. Það þarf að auka skilvirknina, það þarf að hraða málsmeðferð. Endurskoðun á viðmiðunarfjárhæðum ætti að fækka málum og þar af leiðandi létta undir með Samkeppniseftirlitinu. En það má líka auðvitað að horfa til þess hvort fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins hafi fylgt eðlilegri þróun, t.d. launaþróun. Þegar ég skoða þá þróun sýnist mér að þar hafi því miður verið ákveðnir tilburðir til þess að vængstýfa einfaldlega Samkeppniseftirlitið á undanförnum árum, í raun alllöngu tímabili þar sem fjárframlög til eftirlitsins hafa ekki tekið miklum breytingum, að því að mér sýnist.

Það er svo mikilvægt í samhengi samkeppniseftirlits og skilvirkra samkeppnismarkaða að þorri íslensks atvinnulífs eru lítil og meðalstór fyrirtæki. Þau eru burðarvirkið í íslensku atvinnulífi. Það eru fyrirtækin sem reiða sig á Samkeppniseftirlitið til þess að tryggja heiðarlega samkeppni á markaði. Á fámennum markaði eins og hér er samkeppnisumhverfið alltaf einhvers konar línudans á milli stærðarhagkvæmni á litlum markaði og virkrar samkeppni á hinn veginn. Það þýðir á mannamáli að hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá leita flestir markaðir í fákeppni til þess að ná einhvers konar stærðarhagkvæmni fram. Það kallar aftur á öflugt og skilvirkt samkeppniseftirlit.

Þess vegna hugnast mér t.d. illa breytingarnar í 3. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að í stað þess að formleg undanþága Samkeppniseftirlitsins liggi fyrir frá 10. og 12. gr. varðandi samninga og samstarf fyrirtækja geti fyrirtæki lagt mat á það sjálf. Ég bendi m.a. á umsögn fyrrverandi formanns Samkeppniseftirlitsins sem bendir á að mörg fyrirtæki muni jafnvel veigra sér við að eiga slíkt samstarf án þess að geta leitað formlegrar undanþágu af ótta við að gerast með einhverjum hætti á síðari stigum brotleg við lögin. Þetta er eitthvað sem ég tel alla vega vert fyrir nefndina að skoða mjög gaumgæfilega í umfjöllun sinni.

Ég bendi líka á 4. gr., þar sem c-liður 1. mgr. 16. gr. laganna er felldur brott. Það er í raun og veru heimild Samkeppniseftirlitsins til að grípa inn í markaði án þess að lögbrot hafi átt sér stað. Slík inngrip geta verið með ýmsum hætti. Samkeppniseftirlitið hefur á undanförnum árum unnið markaðsgreiningar, skilaði af sér skýrslum um samkeppnisumhverfið á einstökum mörkuðum, á eldsneytismarkaði svo dæmi sé tekið, það hafa verið skrifaðar skýrslur um stöðu lífeyrissjóðanna í íslensku atvinnulífi og vísað þar til einmitt þessarar heimildar Samkeppniseftirlitsins til að geta gripið inn í ef óeðlileg samþjöppun eða þróun er talin eiga sér stað. Ef þetta tæki er tekið af Samkeppniseftirlitinu verða slíkar markaðsgreiningar ekkert sérstaklega leiðbeinandi fyrir markaðinn af því að eftirlitið skortir einfaldlega heimildir til að grípa inn. Það má m.a. benda á skýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkað. Sérfróðir menn telja að hún hafi í það minnsta haft þau áhrif að fyrirtæki á markaði hafi breytt hegðan sinni án nokkurra inngripa af hálfu eftirlitsins, einfaldlega horft til þeirra leiðbeininga og tilmæla sem Samkeppniseftirlitið setti fram um virkni þess markaðar og þau hafi unnið í samræmi við þau og þar með gert hvers kyns inngrip af hálfu eftirlitsins óþörf.

Ég þekki ágætlega þann kór sem syngur hæst þegar Samkeppniseftirlitið ber á góma í umræðu innan atvinnulífsins. Þetta eru stærstu fyrirtækin sem eðli máls samkvæmt finna mest fyrir eftirlitinu, stundum að ósekju en oft líka af góðri og gildri ástæðu. Það væri sennilega merki um afskaplega óvirkt samkeppniseftirlit ef stærstu aðilar á markaði kvörtuðu aldrei undan því. Það væri sennilega orðið nokkuð óeðlilegt umhverfi á samkeppnismarkaði ef markaðsráðandi aðilar á hverjum markaði fyrir sig kvörtuðu aldrei undan Samkeppniseftirlitinu hér á landi. Raddirnar sem heyrist miklu sjaldnar í eru raddir neytenda. Við erum fyrir það fyrsta með ákaflega veikburða umhverfi neytendasamtaka hér á landi sem nýtur ákaflega lítils stuðnings af hálfu hins opinbera og mætti horfa á það sérstaklega hvernig við getum eflt neytendavernd enn frekar. En við heyrum líka ákaflega sjaldan frá litlu fyrirtækjunum sem verða fyrir barðinu á markaðsráðandi aðilum á hverjum markaði fyrir sig. Þær raddir heyrast ekki víða í umræðunni. Þau fyrirtæki hafa sjaldnast mikla burði til að leita réttar síns eða fjárráð til að ráðast í miklar herferðir. Þess vegna skiptir svo miklu máli að hér í þessum sal sé hagsmunum þessara aðila, litlu fyrirtækjanna, neytenda, gætt í hvívetna við endurskoðun á samkeppnislöggjöfini.

Þess vegna hefði ég talið mun heppilegra, eins og ég nefndi í andsvari mínu við hæstv. ráðherra, að í undanfara endurskoðunar á samkeppnislöggjöfinni hefði verið skipuð þverfagleg nefnd um endurskoðun hennar þar sem öll sjónarmið væru dregin að borðinu, þar sem umræðan færi ekki fram undir háværri gagnrýni í fjölmiðlum heldur væri vönduð málefnaleg umfjöllun innan slíkrar nefndar eða starfshóps. Þess sakna ég mjög. Og enn og aftur sakna ég þess líka mjög að ekki hafi verið meira tillit tekið til þeirra margháttuðu athugasemda sem komu fram í samráðsgátt. Það er reyndar að verða einhver lenska út af fyrir sig. Ég verð að játa það að ég er ekki í hópi þeirra sem eru sérstakir aðdáendur samráðsgáttarinnar til að byrja með. Ég tel að hún taki í raun og veru fram fyrir hendur á málefnalegri umfjöllun þingsins, skerði yfirleitt þann tíma sem Alþingi hefur til að vinna málin. Eins og við sjáum hér er veigamikið atriði að koma inn í mars, væntanlega með það í huga að ljúka því fyrir vorið, sem mun takmarka mjög tíma viðkomandi nefndar til að fjalla vandlega um málið. Það er enginn tilgangur með samráðsgátt ef það á aldrei að hlusta á þær athugasemdir sem þar eru settar fram hvort eð er. Þá getum við alveg eins klippt hana út og veitt þá frekar þinginu aðgang að málum fyrr, veitt þinginu lengri tíma til að vinna þau með vönduðum hætti.

Ég held að hér sé æðimargt sem þurfi að gaumgæfa betur en margt er líka til bóta. Ég vona svo sannarlega að um það skapist samstaða innan efnahags- og viðskiptanefndar um að vinna þetta mál með vönduðum hætti því að það er margt sem þarf að kanna vandlega og þetta er ekki mál sem þolir það að vera straujað í gegnum nefndina á Alþingi óbreytt með öllu.