150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:08]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að óhætt sé að fullyrða að ágætissamstaða sé um það í þinginu eða mér virðist að orðið geti ágæt samstaða um það prinsipp að skipa stjórn yfir Landspítalann. Sjálfur hef ég talað fyrir því í mörg ár en ekki haft mikið erindi sem erfiði. Ég er ekki alveg viss um að sú útfærsla sem lögð er til af hv. flutningsmönnum þessa frumvarps, sem er ágætt að fá inn í þingsal, sé nægilega góð. Því vil ég spyrja hv. framsögumann tveggja spurninga til að byrja með, annars vegar: Hvernig komast flutningsmenn að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að sjö sitji í þessari stjórn? Það er óvenjufjölmenn stjórn. Eitthvað segir mér að hún gæti orðið frekar hægvirk en hraðvirk. Ég hefði skilið fimm eða jafnvel níu manna stjórn, en með sjö eru einhver rök sem ég fæ ekki séð hér.

Hitt er að ég skil þetta frumvarp þannig að hér sé ekki verið að leggja til að stjórn yfir Landspítalanum fái það vald sem aðrar stjórnir hafa í fyrirtækjum, a.m.k. þar sem ég þekki til, að ráða og reka forstjóra. Frummælandi verður að leiðrétta mig ef ég misskil eitthvað. Ég hygg að stjórn yfir fyrirtæki eða stofnun sem ekki hefur það vald að ráða og reka forstjóra sé veikburða og sé meira eða minna (Forseti hringir.) töluvert undir forstjórann sjálfan komin. Þess vegna spyr ég: Er það réttur skilningur hjá mér, hv. flutningsmaður?