150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég þakka honum almennt fyrir orð hans um að sú meginhugmynd sem hér er borin fram um stjórn yfir spítalanum hafi víðtækan stuðning. Það er mjög gott að þingmaðurinn skuli rifja upp að hann hafi sjálfur talað fyrir því á undanförnum árum. Frumvarpið er ekki þannig vaxið að það sé einhver ný uppfinning, heldur er hér leitast við að hrinda í framkvæmd hugmynd sem verið hefur á floti í íslensku samfélagi misserum og árum saman án þess að frumvarp eins og þetta hafi komið fram, svo mér sé kunnugt.

Hann spyr: Af hverju sjö en ekki fimm eða níu? Þar liggur efinn, frú forseti. Kannski er leitast við að fara einhverja millileið með því að hafa sjö. Það er ekki stóra málið í mínum huga hvort stjórnarmenn eru fimm eða sjö en mér þætti svolítið vel í lagt að hafa þá níu, ég verð að viðurkenna það. Í mínum huga er hins vegar ekkert úrslitaatriði hvort þeir eru fimm eða sjö. Ég lít þannig á að það sé hagkvæmnisatriði og velti á því þegar hugmyndin mótast nánar, eins og ég gat um í svari mínu við fyrra andsvari, að gæti mótast á því stigi.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, það er ekki beinlínis tekið fram en venjuleg stjórn hefur það hlutverk að ráða og reka forstjóra. Það má alveg taka undir að það myndi ekki spilla málinu þótt í áframhaldandi vinnslu þess (Forseti hringir.) kæmi inn skýrara ákvæði um það atriði en er að finna í frumvarpinu. Það er alveg hárrétt.

Ég á von á því að frumvarpið fái mjög vandaða meðferð, til að mynda á vettvangi hv. velferðarnefndar.