150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

launasjóður íslensks afreksíþróttafólks.

524. mál
[19:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur kærlega fyrir framsöguna og fyrir að leggja fram þetta þarfa mál. Það vill svo til að þingflokkur Viðreisnar er ásamt nokkrum öðrum þingmönnum með sambærilegt mál sem hefur verið lagt fram. Ef svo fer fram sem horfir verður það á dagskrá á þingi innan skamms. Það felur í stuttu máli í sér að Alþingi feli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum og að stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur.

Í stóru myndinni erum við að tala um sömu markmið og stóra málið er að við gerum eitthvað í þessu. Hv. þingmaður fór vel yfir það í greinargerð sinni hvar skórinn kreppir. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessu. Ef við ætlum okkur að hafa afreksíþróttamenn okkar til ánægju og yndisauka fyrir þjóðina alla, ef svo má segja, og síðan sem fyrirmyndir fyrir unga fólkið okkar sem er að stíga sín fyrstu skref þurfum við að búa þannig að þessum hópi að sómi sé að og að honum sé unnt að sinna þessum málum.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni þætti, ef það mál sem ég tala um hér kemst á dagskrá fljótlega og það verði ekki til þess að tefja það mál sem hér er verið að mæla fyrir, um að farið yrði saman í þetta og við myndum sameina krafta okkar í að vinna þetta mál sem best. Ég er alveg klár á því að við fengjum þingheim með okkur í það. Hvernig líst hv. þingmanni á það?