150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

áhrif Covid-19 á atvinnulífið.

[10:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Loga Einarssyni að mér finnst viðbragðsaðilar á Íslandi standa sig ótrúlega vel og vera með yfirvegaðar yfirlýsingar og halda utan um þessi mál eins og hægt er. Þau eru síbreytileg frá einum degi til annars. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að hagkerfið okkar hefur farið kólnandi. Þess vegna höfum við í ríkisstjórninni horft til þess að koma með efnahagslegar aðgerðir sem væru samhliða framlagningu fjármálaáætlunar, sem er auðvitað veruleg áskorun í þessum heimi þar sem við vitum ekki í raun og veru hvað gerist. Sem betur fer tókum við til ákveðinna varna vegna breytinga á hagkerfinu á síðasta ári. Þær aðgerðir hjálpa okkur verulega í þessari stöðu í dag. En við þurfum einfaldlega að gera meira og við þurfum að taka miklu fastar á til að varna því sem ellegar gerist ef við gerum ekki neitt.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af fyrirtækjum þar sem starfsmenn lenda hugsanlega í sóttkví eða bara hitt að neyslan í samfélaginu fari að dragast það mikið saman að við förum að sjá mjög vaxandi atvinnuleysi. Hér er efnahagslegur og pólitískur stöðugleiki sem gerir það að verkum að við erum ekki í þessum hefðbundnu efnahagslegu dýfum sem við höfum oft séð áður, þ.e. gengið hrynur og verðbólgan rýkur upp. En núna er það atvinnuleysi sem vex. Ég vil ekki standa hér og halda því fram að ég sé með allar lausnir á þessum málum. Við erum að vinna úr þeim. Við erum að skoða það að auðvitað geta sumir í sumum fyrirtækjum starfað heima, jafnvel þó að þeir séu í sóttkví, augljóslega ekki þeir sem eru veikir, eru komnir inn í ákveðið umhverfi þar. Við höfum átt samtöl við aðila vinnumarkaðarins og ég held að það þurfi að gera það enn frekar á næstunni.

Ég vil bara halda því fram hér að án þess að við tökum öll höndum saman um þetta verkefni þá verður mjög erfitt fyrir okkur (Forseti hringir.) að komast út úr því áfallalaust. Það verða án efa einhver áföll í rekstri fyrirtækja og í samfélaginu í heild sinni en okkur ber skylda til að gera það sem við getum til að takmarka það sem mest.