150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

undirboð í ferðaþjónustu.

[10:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Varðandi þá fyrirspurn gæti ég trúað því að þær upplýsingar liggi fyrir í fjármálaráðuneytinu. Mér er ekki kunnugt um það en við getum aflað þeirra. Það breytir því ekki að ég er á þeirri skoðun að þetta sé nauðsynlegt ferli. Þetta var ekki hugsað svona. Þegar kerfið var sett upp var það hugsað þannig að rútufyrirtæki í einu landi gæti farið með hóp og keyrt um í því landi í einhverja daga og farið svo heim. Og það er það sem Danir eru að reyna að setja upp með þessari sjö daga reglu. Síðan er þetta aðeins flóknara því að auðvitað getur starfsmaðurinn kannski verið þarna í mánuð en hann þarf þá að fara heim. Við þurfum að horfa á það að það getur komið til samspils nokkurra ráðuneyta í þessu samhengi en ég held að það sé mjög mikilvægt að fylgja þessu eftir vegna þess að ef glufur eru í kerfi þá er það bara þannig alþjóðlega að menn finna þær í þeim löndum og nýta sér þær, hvort sem er í þessum geira eða einhverjum allt öðrum hlutum samfélagsins.

Við erum á fullu að reyna að fylgja því eftir mjög nákvæmlega (Forseti hringir.) hvernig Danir ganga fram í þessu og munum í það minnsta taka upp sams konar reglur ef ekki ganga lengra.