150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

flensufaraldur og fátækt.

[10:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það mæðir auðvitað töluvert á innviðum samfélagsins alls í ástandi sem þessu. Á Íslandi ríkir í dag almannavarnaástand, hættustig almannavarna. Einmitt núna er hlutverk heilsugæslunnar og 1700 símans mjög mikið. Þar er verið að svara spurningum af öllu tagi. Fólk hefur áhyggjur af ýmsu, m.a. því sem hv. þingmaður nefnir hér. Það er auðvitað staðreynd að einkenni Covid-19 líkjast mjög inflúensusýkingu og eins og inflúensa getur Covid-19 komið fram í alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingu og lungnabólgu sem kemur oft fram sem öndunarerfiðleikar á fjórða til áttunda degi veikinda þegar um er að ræða Covid-19.

Það sem við getum ráðlagt og gerum í 1700 símanum og gerum gagnvart þeim sem hafa samband við heilsugæsluna er að ráðleggja fólki að fara vel með sig eins og alltaf er. Ef fólk hefur ástæðu til að ætla að það gæti verið um smit að ræða er því ráðlagt að það verði tekin prufa og það hefur verið gert í yfir 300 tilvikum hér þar sem það hefur verið kannað.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um fátækt og stöðu þeirra sem eru efnalitlir við kringumstæður sem þessar. Það er full ástæða til að tala um það. Þess vegna skiptir miklu máli að við erum að stíga skref í áttina að því að draga úr gjaldtöku í heilsugæslunni og tryggja að fólk verði ekki fyrir tekjuskerðingu við það að fara í sóttkví, það er nú í gangi í samtali milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Já, við erum svo sannarlega að hugsa um þá þætti sem hv. þingmaður velti hér upp.