150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

flensufaraldur og fátækt.

[10:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég vona heitt og innilega að það sé verið að gera eitthvað. En ég ætla að venda mínu kvæði í kross og spyrja hana um annað sem ég las um daginn en varðar líka börn. Er það rétt að frá og með 1. janúar hafi verið breytt reglugerð sem snertir börn sem þurfa á hjálpartækjum að halda eins og spelkum og innleggjum í skó og kostnaður við það hafi stórlega hækkað? Fólk hafi farið úr því að þurfa ekki að borga neitt upp í yfir 100.000 kr., fyrir börn sem þurfa nauðsynlega á þessu að halda? Þetta er auðvitað skelfileg tala. Ef hjón í láglaunastörfum með barn sem þarf á spelkum að halda þurfa allt í einu að borga 100.000 kr. þá segir það sig sjálft að þau hljóta að spyrja sig: Hef ég efni á því? Hvaða afleiðingar hefur það ef það hefur ekki efni á því að hjálpa barni með snúinn fót sem þarf spelkur?

Er það rétt að búið sé að breyta þessari reglugerð þannig að þessum einstaklingum sé neitað um styrki fyrir innlegg í skó og spelkur?