150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

samræmd viðbrögð ríkja við fólksflutningum.

[11:04]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvert hv. þingmaður er að fara. Nú á utanríkisþjónustan og utanríkisráðherra mjög gott samstarf við önnur ráðuneyti og aðra ráðherra. Það er sannarlega engin undantekning þegar kemur að þeim ráðherra sem fer með þessi mál og ef það er eitthvað sem snýr að utanríkisþjónustunni þá vinnum við að sjálfsögðu með viðkomandi ráðuneytum að lausn þeirra mála. Ég held að það sé hins vegar alltaf skynsamlegt í öllu að það sé skýrt hvar ábyrgðin liggur og hvar valdsviðin liggja. Það á við í þessum málaflokki eins og öðrum. Þetta snýst ekki um metnað einstakra ráðherra eða neitt slíkt. Stjórnarráðið er eins og það er og ef menn eru með hugmyndir um að breyta skipan þar þá er það bara sérmál. En varðandi samstarf utanríkisþjónustunnar við önnur ráðuneyti þá er það mjög gott og ekki yfir neinu að kvarta í því.