150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari umræðu. Ég held að einmitt umræða um bætta lýðheilsu sé það sem við sem samfélag höfum sem best tækifæri til að gera betur. Það eru fjölmargir þættir þegar kemur að fræðslu og forvörnum sem við getum eflt verulega til að bæta heilsu og líðan landsmanna almennt, ungra sem aldinna. Ég get ekki tekið þátt í þessari umræðu án þess að minna á ágætt mál sem við í Viðreisn lögðum fram um að gera sálfræðiþjónustu að eiginlegum hluta hins formlega heilbrigðiskerfis sem við höfum því miður dregið allt of lengi, þ.e. að Sjúkratryggingar komi að fullu inn í kostnaðarþátttöku á sálfræðiþjónustu fyrir unga sem aldna. Við tölum allt of sjaldan um líðan okkar. Við Íslendingar erum kannski dálítið finnsk sem þjóðfélag. Það þykir ekki smart að tala um vanlíðan sérstaklega en það er auðvitað það sem við þurfum að gera. Við þurfum að opna það samtal inni í grunnskólunum og framhaldsskólunum og gera sálfræðiþjónustuna að fullgildum þátttakanda í heilbrigðiskerfinu okkar. Við vitum hvað það skiptir miklu máli. Andleg líðan hefur gríðarleg áhrif á velferð okkar og heilsu til lengri tíma litið.

Við tölum allt of lítið um þetta. Við höfum nálgast geðlækningar og sálfræðiþjónustu sem dálítið tabú í samfélagi okkar, að það sé ljótt að tala um að okkur líði illa, að við eigum við einhver andleg veikindi að stríða, en auðvitað er með andleg veikindi eins og líkamleg, það skiptir miklu máli að geta leitað sér aðstoðar strax, að það sé ekki til skammar að ræða það og að heilbrigðiskerfið okkar taki á andlegri vanlíðan eða veikindum með nákvæmlega sama hætti og líkamlegum veikindum. Ég vona svo sannarlega að við nýtum tækifærið núna og ljúkum þessu ágæta máli varðandi kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga í sálfræðiþjónustunni.