150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Sem betur fer næst að afgreiða mjög stóran hluta af þingstörfunum sem hér fara fram í tiltölulega breiðri sátt flestra flokka. Þannig var í þessu máli. Það var býsna einfalt og vel undirbúið. Hv. þingkona sem talaði á undan og er formaður nefndarinnar hafði önnur sjónarmið, en nefndarálitið eins og það er prentað er það sem nefndin kom sér saman um.

Ég verð að viðurkenna að ég missti þráðinn í ræðu hv. þingkonu, en hún fór langt út fyrir efni nefndarálitsins. Ég spyr hvort það sé eðlilegt tilefni hjá framsögumanni, sem þar að auki er með fyrirvara á nefndarálitinu, að fara í persónulegar vangaveltur og víkja langt frá álitinu. Hefði ekki verið heppilegra að hún færi þá bara í ræðu og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum?

Við erum hugsanlega að verða vitni að einhvers konar heimiliserjum milli stjórnarflokkanna og ég þykist alveg fullviss um að fulltrúar Vinstri grænna og Framsóknar deili ekki þeirri sýn sem hér kom fram. Ég reikna reyndar með því að hv. nefndarmenn frá Sjálfstæðisflokknum, aðrir í nefndinni, geri það ekki heldur. Maður hlýtur að spyrja hvort uppákoma eins og við urðum vitni að sé heppileg fyrir áframhaldandi vinnu nefndarinnar og hvort Sjálfstæðisflokkurinn verði ekki að gera grein fyrir því hvort hv. þingkona tali í umboði flokksins.