150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[12:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að verið sé að ljúka þessu máli og við berum áfram gæfu til þess sem þjóð að fylgja Evrópusambandinu í aðgerðum í loftslagsmálum. Evrópusambandið hefur klárlega leitt umræðu um aðgerðir til að draga úr losun, sýnt hvað mestan metnað á undanförnum árum í þeim efnum og við ákváðum fyrir allnokkru síðan, ásamt nágrönnum okkar Norðmönnum, að fylgja þeim í þessum efnum.

Ég verð hins vegar að taka undir að framsaga hv. þm. Sigríðar Andersen var nokkuð sérkennileg í ljósi þess að nefndarálitið er afskaplega skýrt og knappt. Þar er lagt til að þingsályktunartillagan sé samþykkt óbreytt. Það var augljóst að formaður utanríkismálanefndar var ekki á þeirri línu og í raun ekki sammála þeirri stefnu sem nefndin tók. Væntanlega hefur hv. þingmaður orðið undir í atkvæðagreiðslu eða umræðu nefndarinnar um málið og ákveðið að bregða á það ráð að flytja einhverja allt aðra ræðu í framsögu en nefndarálitið felur í sér.

Ég ætla ekki svo sem að hafa mörg orð um það en það er víst svona sem mál eru dregin út með töngum. Það er þá í fyrsta skipti sem maður verður vitni að því að mál sé dregið út með töngum frá formanni fastanefndar.