150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

náttúruvernd.

611. mál
[12:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Megintilefni frumvarpsins varðar breytingu og leiðréttingu á skilgreiningu hugtaksins „óbyggt víðerni“ þannig að skilgreiningin verði hin sama og gert var ráð fyrir í frumvarpi því er varð að lögum um náttúruvernd í apríl 2013. Eins og ákvæðið er í lögum dag er ekki unnt að friðlýsa svæði samkvæmt friðlýsingarflokknum „óbyggð víðerni“ ef mannvirki eru til staðar í innan við 5 km fjarlægð frá mörkum svæðis þótt þau sjáist ekki vegna landfræðilegra aðstæðna, t.d. fjallgarðs. Í greinargerð áðurnefnds frumvarps kom fram að svæði sem yrðu friðlýst sem óbyggð víðerni væru að jafnaði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum. Þannig yrði unnt að friðlýsa svæði sem óbyggt víðerni þótt viðkomandi svæði nái ekki ofangreindum fjarlægðarmörkum, t.d. ef landfræðilegar aðstæður leyfðu.

Það er því nauðsynlegt að laga skilgreiningu hugtaksins. Við afgreiðslu frumvarpsins 2013 var ákveðið að færa skilgreiningu hugtaksins „óbyggt víðerni“ úr 46. gr. frumvarpsins sem fjallar um friðlýsingarflokkinn „óbyggð víðerni“ yfir í 5. gr. sem fjallar um skilgreiningar. Við þessa breytingu færðust til orðin „að jafnaði“ sem gerði það að verkum að þau standa nú eingöngu fyrir framan lýsingu á stærðarmörkum þess svæðis sem skilgreint er sem óbyggt víðerni en ekki fyrir framan fjarlægðarmörk svæðisins.

Eins og áður sagði er breytingunni sem þetta frumvarp mælir fyrir um ætlað að heimila að friðlýsa svæði sem uppfyllir öll skilyrði sem óbyggt víðerni þótt mannvirki séu til staðar í innan við 5 km fjarlægð frá mörkum svæðisins. Breytingin hefur þau áhrif að meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort mannvirki sem er utan fyrirhugaðs friðlýsts svæðis en innan fjarlægðarmarka hafi áhrif á flokkun þess í viðkomandi friðlýsingarflokk. Einnig mun hún hafa þau áhrif að möguleiki verði að framkvæmdir séu í innan við 5 km fjarlægð frá mörkum friðlýsta svæðisins, svo framarlega sem þær hafi ekki áhrif á verndargildi þess.

Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið ekki hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.