150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

íslensk landshöfuðlén.

612. mál
[12:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög spennandi að þetta mál sé komið til umfjöllunar Alþingis. Ég get ekki sagt að það sé algjör einhugur um það meðal þeirra sem best þekkja til tæknimálanna enda verður að segjast eins og er að staða ISNIC er skrýtin, að það sé einkaaðili á markaðnum sem einfaldlega ráði þessu. Fólk gerir væntanlega almennt ráð fyrir því að .is þýði Ísland í skilningi þjóðríkis, að ríkið sé fyrir hönd þess. Hins vegar velti ég fyrir mér útfærsluatriðum, sér í lagi 11. gr. sem fjallar um lokun og haldlagningu skráðra léna. Í b-liðnum kemur fram að að undangengnum dómsúrskurði geti lögregla krafist þess að skráningarstofa loki léni og í b-liðnum segir: „ef lén er notað til að miðla ólöglegu efni eða efni sem hvetur til refsiverðrar háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög og meint brot getur varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum eða meira“.

Hér er um að ræða inngrip inn í það að aðilar á netinu geti tjáð sig með einhverjum hætti, enda stendur hérna að „meint brot“ geti varðað fangelsisrefsingu, þ.e. ef hvatt er til slíkrar háttsemi. Í almennum hegningarlögum er ansi margt bannað og ívið fleira en sá sem hér stendur myndi vilja, þar á meðal að smána opinberlega „erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki“ sem dæmi. Við þessu er fangelsisvist allt að tveimur árum.

Getur verið að það sé skynsamlegra að hafa þessi viðmið hærri, þ.e. ekki tveggja ára fangelsisvist heldur eitthvað meira? Ég hef ekki tíma til að fara út í aðrar greinar og mér finnst þessi duga ágætlega vegna þess að það er t.d. bannað að móðga Trump. Það væri freistandi að gera það í þessari pontu þar sem ekki má láta mann standa reikningsskil á því sem maður segir. (Forseti hringir.) Mér finnst mjög mikilvægt að móðga Trump, mér finnst mikilvægt að móðga suma erlenda þjóðhöfðingja og mér líst ekkert á að fara að loka lénum vegna þess að einhver á netinu gerir það.