150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

íslensk landshöfuðlén.

612. mál
[12:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er fjarri lagi að dómstólar hafi úrskurðað um ákvæði í almennum hegningarlögum sem varða skerðingar á tjáningarfrelsi á einhvern óumdeildan hátt. Til dæmis varðandi 233. gr. a sem fjallar um svokallaðan hatursáróður hafa niðurstöður Hæstaréttar verið beinlínis óskiljanlegar, jafnvel löglærðu fólki, vegna þess að þar koma inn svo mikil persónuleg viðmið um það hvað þykir hneykslanlegt og hvernig tilfinningar eitthvað vekur. Þá er ég ekki að tala um ákall um að meiða neinn, ekki hryðjuverkaáróður eða neitt því um líkt, bara eitthvað sem fer rosalega mikið fyrir brjóstið á einhverjum hópi og fyrir vikið er það dæmt sem brot á ákvæðinu. Skyldi reyndar engan furða miðað við orðalag ákvæðisins. Ákvæðið er þannig að það er erfitt að dæma eftir því.

Klám er bannað á Íslandi og eftir því sem ég kemst næst erum við hið eina af svokölluðum vestrænum lýðræðisríkjum þar sem það er enn bannað, væntanlega vegna þess að við erum svo smá og það fámenn að það er enginn raunverulegur klámbransi hérna sem við vitum um og þar af leiðandi enginn þrýstingur á að afnema þá botnlausu þvælu að hafa það bannað. Við dreifingu þess er að vísu einungis sex mánaða fangelsisvist en hér er líka talað um ólöglegt efni og ég geri þá ráð fyrir að klám sé ólöglegt efni á Íslandi.

Þá vil ég minnast aftur á 95. gr. almennra hegningarlaga sem snýr að þjóðhöfðingjum. Það er gott og blessað að hæstv. ráðherra þyki í góðu lagi að vera með eitthvert góðlátlegt grín. Ég er ekki að tala um góðlátlegt grín. Heiðarleg og sanngjörn gagnrýni á fólk eins og Donald Trump og fleiri leiðtoga í heiminum er ekki góðlátleg, hún er ekki léttvæg, hún er mjög hörð. Hún er mjög dónaleg og hlýtur að vera til þess fallin að móðga viðkomandi þjóðhöfðingja og við því liggur tveggja ára fangelsisvist. Við getum ekki farið í að laga almenn hegningarlög alveg að mínu sniði hér og nú í þessum andsvörum en ég velti fyrir mér hvort þetta fangelsisviðmið mætti ekki vera hærra, (Forseti hringir.) t.d. þrjú eða fjögur ár frekar en tvö. Er þetta ekki aðeins of lítið sem þarf til að réttlæta þessa afskráningu?