150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 311/2019 um breytingu á X. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.

616. mál
[13:53]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 311/2019, en með henni er felld inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/302 frá 28. febrúar 2018 um ráðstafanir gegn óréttmætum landfræðilegum takmörkunum á netumferð og annarri mismunun sem byggist á því hvert þjóðerni viðskiptavinar er, hvar hann er búsettur eða hvar hann hefur staðfestu á innri markaðnum, og um breytingu á reglugerðum (EB) 2006/2004 og (ESB) 2017/2394 og tilskipun 2009/22/EB.

Umræddri reglugerð er ætlað að tryggja jafnræði kaupenda í smásöluviðskiptum á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins óháð þjóðerni, búsetu eða staðfestu. Megininntak hennar er að tryggja réttindi neytenda en þó gildir hún einnig um kaup lögaðila sem fallið geta undir gildissvið reglugerðarinnar að því marki sem viðkomandi lögaðilar eru notendur þeirrar vöru eða þjónustu sem keypt er. Reglugerðin gildir aðeins um viðskipti yfir landamæri og gildir óháð því við hvaða aðstæður kaup eiga sér stað.

Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að almennt sé óheimilt að loka fyrir eða takmarka aðgang kaupenda að vefsíðum seljenda með vísan til þjóðernis, búsetu eða staðfestu kaupanda. Einnig er kveðið á um að aðildarríki tilnefni stjórnvald til að hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Hér á landi verður Neytendastofa tilnefndur eftirlitsaðili.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.