150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:23]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Mér finnst hins vegar ekki alveg vera samræmi milli þess sem hann segir og þess sem við gerðum í mannréttindaráðinu. Eitt af áherslumálum okkar var baráttan fyrir LGBTI-fólk. Það fór ekki fram hjá neinum, ég hélt að eftir því hefði verið tekið. Allar þær ræður sem ég hef haldið og sömuleiðis okkar fulltrúar eru aðgengilegar og ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þær. Það kemur mér á óvart að það hafi farið fram hjá hv. þingmanni, gagnrýnin t.d. nú í síðustu lotu á Venesúela, en það er kannski eðlilegt, það er margt í fjölmiðlum. En það var m.a. það sem var tekið sérstaklega út úr ræðu minni og er ekki í fyrsta skipti sem ég gagnrýni stjórnvöld í Venesúela.

Varðandi Filippseyjar, af því að hv. þingmaður segir að ályktunin hafi verið naumlega samþykkt, þá var það sem við fórum fram á við stjórnvöld í Filippseyjum vægast sagt mjög hógvært, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Mér finnst að hv. þingmaður, sem ég veit að vill vera sjálfum sér samkvæmur, ætti að huga að því af hverju viðbrögð filippeyskra stjórnvalda voru með þeim hætti sem raunin varð. Það er það sem olli kannski mestum áhyggjum. En það er ekki þannig að við getum leyst öll mál eða vakið athygli á öllum málum alls staðar. En það sem hv. þingmaður vísar til gerðum við sérstaklega. Síðan höfum við líka lagt sérstaklega áherslu á mannréttindamálin, og höfum í raun sérstaka stefnu um það, (Forseti hringir.) þegar kemur að þróunarsamvinnu okkar, þó að hún tengist þessu máli ekki beint en við getum rætt það líka. (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér það því það er rétt sem hv. þingmaður nefndi um þau lönd sem þarna voru talin upp.