150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Með þessu frumvarpi er lagt til að óráðstafaður persónuafsláttur verði greiddur út til einstaklinga, óháð því hvort þeir eru með skattskyldar tekjur eða ekki. Samkvæmt gildandi lögum fellur persónuafsláttur niður sem er ekki ráðstafað samkvæmt 67. gr. A laga um tekjuskatt. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að hafi persónuafslætti ekki þegar verið ráðstafað til greiðslu tekjuskatts, útsvars eða auðlegðarskatts verði hann greiddur út til einstaklinga.

Slíkt form á tekjuskatti hefur verið nefnt neikvæður tekjuskattur og felur í sér að grunnupphæð sem nú er lögfest í formi persónuafsláttar verði alltaf greidd skilyrðislaust til allra sem eiga slíkan rétt. Það fyrirkomulag myndi sérstaklega nýtast ungu fólki og námsmönnum sem margir hverjir afla lítilla tekna en safna í stað þess skuldum í formi námslána. Ef námsmönnum væri greiddur út ónýttur persónuafsláttur á meðan á námi stæði gætu einhverjir þeirra mögulega tekið lægri námslán eða hreinlega bara látið enda ná saman.

Það fyrirkomulag sem er nú við lýði gerir þá kröfu að viðkomandi hafi að lágmarki um 160.000 kr. í tekjur á mánuði til að geta fullnýtt persónuafslátt sinn. Það segir sig sjálft að kjör þeirra sem eru undir þeim tekjumörkum eru bágborin. Þess vegna mun óráðstafaður persónuafsláttur renna að langmestu leyti til þeirra sem hafa litlar eða engar tekjur. Sá hópur samanstendur m.a. af ungu fólki, fjölskyldufólki, nemendum og öðrum sem hafa litlar almennar tekjur en einnig þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum og þeim sem af einhverjum ástæðum eiga ekki rétt á slíkri aðstoð.

Kostnaður við þessa breytingu hefur þegar verið kannaður. Í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar á 148. löggjafarþingi segir að heildarupphæð ónýtts persónuafsláttar tekjuárið 2016 hafi verið 10.512 millj. kr. en 10.477 millj. kr. tekjuárið 2017. Því má gera ráð fyrir að kostnaður við slíka breytingu verði um 10,5 milljarðar kr. Það er mikilvægt að reikna inn í dæmið að lækkun á skattbyrði þeirra sem eru tekjulægstir í samfélaginu leiðir af sér sparnað annars staðar í samfélaginu. Þannig leiða þessi auknu útgjöld íslenska ríkisins það af sér að útgjöld lækka á öðrum stöðum. Sem dæmi má nefna þann óhjákvæmilega kostnað sem leggst á ríkið þegar fólk lifir við fátækt, t.d. kostnað vegna heilbrigðis- og félagsþjónustu og í refsivörslukerfinu.

Forseti. Við sáum það í Kveiksþættinum á þriðjudaginn að hver einasta króna aukalega skiptir máli fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Við sáum einnig að núverandi nálgun á velferðarkerfið með sínum skilyrðingum og skerðingum hefur skilað okkur 28.000–35.000 manns, þar af 10.000 börnum sem lifa í fátækt.

Forseti. Þetta hlýtur að vera misheppnuð tilraun. Við hljótum að þurfa að endurskoða þetta kerfi. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að greiðsla óráðstafaðs persónuafsláttar telst ekki til tekna hjá móttakanda og hefur þar af leiðandi hvorki áhrif á greiðslur móttakanda frá Tryggingastofnun eða sveitarfélagi né aðrar greiðslur sem kunna að vera tekjutengdar. Þar með kemur útgreiðslan ekki til skerðingar á öðrum framfærslugreiðslum móttakanda.

Hugmyndin um neikvæðan tekjuskatt eða það sem ég hef kallað persónuarð var sett á blað fyrir um 80 árum. Einn helsti talsmaður hennar er Milton Friedman en hann er þekktasti hagfræðingur frjálshyggjunnar. Sú útgáfa sem hér er til umræðu, útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar á Íslandi, er meira að segja ívið minni í sniðum en upprunalega hugmyndin að neikvæðum tekjuskatti þar sem persónuafsláttur á mánuði er mjög lágur. Tækifærin sem felast í aðgerðinni eru engu að síður fjölmörg. Rætt hefur verið um hvernig borga eigi fyrir útgreiðslu persónuarðs. Það er langt frá því að vera óyfirstíganlegt vandamál. Upphæðin er hófleg og vel hægt að gera ráð fyrir henni án þess að setja rekstur ríkisins á hliðina. Fjórðungur upphæðarinnar ratar beint aftur inn í kerfið í formi virðisaukaskatts. Framlög til LÍN munu lækka að einhverju marki. Fljótlega mun svo árangur aðgerðarinnar tikka inn, t.d. í minni kostnaði við brottfall nemenda en hann hleypur á tugum milljarða á hverju ári.

Áður en útgreiðsla persónuafsláttar myndi hefjast þyrfti að ræða hvernig best væri að mæla árangur af aðgerðinni. Þarna er um ákveðna tilraunastarfsemi að ræða og þyrftu ríkið, menntastofnanir og atvinnulífið í heild að skoða árangurinn í víðara samhengi en eingöngu efnahagslegu. Rannsóknir sem hafa farið fram á svipuðu fyrirkomulagi erlendis gefa til kynna að útgreiðsla ónýtts persónuafsláttar gæti haft jákvæð áhrif á fjölmarga velsældarvísa sem ríkisstjórnin kynnti í skýrslu sinni um velsældarhagkerfið, t.d. aukið heilbrigði, minna álag og hærra menntunarstig en einnig aukinn kaupmátt og betri skuldastöðu heimilanna.

Forseti. Með þeirri einföldu breytingu að greiða út persónuafsláttinn til þeirra sem engar tekjur hafa eða mismuninn til þeirra sem fullnýta ekki persónuafsláttinn er hægt að stíga lítið fyrsta skref í þá átt að tryggja öllum ákveðnar grunntekjur. Í núverandi efnahagskerfi myndi þessi aðgerð helst nýtast námsmönnum en um leið opnar hún margar dyr og gæti orðið byrjunin á hugarfarsbreytingum í samfélagskerfinu okkar. Hún gæti orðið stökkpallur að næstu skrefum með það að leiðarljósi að breyta skattalegum ívilnunum og bótakerfum yfir í skilyrðislausa grunnframfærslu til að tryggja að allir geti átt jafnan hlut í okkar samfélagslegu verðmætum, óháð stöðu þeirra og tekjum.