150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[16:57]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að súmmera það sem hv. þingmaður sagði niður í þrjú orð: Mennt er máttur. Við erum sammála um það. Við erum sammála um að ein besta leiðin til að næstu kynslóð vegni betur en þeirri fyrri sé að menntunarstig hennar sé sem hæst og að jafn aðgangur sé að menntakerfinu. Staðan er hins vegar ekki sú að allir 16–17 ára einstaklingar búi við skort í foreldrahúsum. Þess vegna grunar mig að skilyrðislaus framfærsla til allra þessara einstaklinga sem kostar 3 milljarða nýtist ekki jafn vel og skilyrtur stuðningur upp á sömu upphæð til þeirra einstaklinga sem glíma einmitt við fátækt og hefðu mest upp úr því að ganga menntaveginn. Þeir þurfa að fá stuðning. Það er kannski nefndarinnar að komast að því vegna þess að ekkert stendur um það í greinargerð frumvarpsins. Það er engin greining sem býr að baki þessu heldur erum við þingmaðurinn hér bara að taka þetta dálítið á innyflunum og tilfinningunni. Þetta þarf að greina ofan í kjölinn út frá mjög mörgum breytum.