150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[17:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Almennar og skilyrðislausar aðgerðir þurfa ekkert endilega að vera í því formi sem er í þessu frumvarpi, að rétta fólki tékka einu sinni í mánuði. Það væri t.d. hægt að taka 3 milljarða og bjóða upp á ókeypis framhaldsskóla. Það kostar dálítið að vera í framhaldsskóla, námsbækur, skráningargjöld og allt það. Það væri hægt að taka eitthvað af þessum peningi og gera leikskólann gjaldfrjálsan. Það myndi koma ungu barnafólki mjög vel. Það má hugsa sér ókeypis skólamáltíðir eða ókeypis frístundir fyrir börn. Þetta eru almennar aðgerðir sem myndu væntanlega kosta minna en 11,2 milljarða en myndu skila sér beint til einstaklinganna sem þingmaðurinn nefnir hérna.

Eins og hann sagði erum við bara að henda hugmyndum á loft. Þetta þarf að greina og 11,2 milljarðar eru peningar sem geta breytt mjög miklu. Þess vegna væri mjög leiðinlegt að setja upp kerfi sem myndi dæla út 11,2 milljörðum á ári án þess að þeir skiluðu tilsettum árangri.