150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

tekjuskattur.

543. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Nei, að sjálfsögðu styð ég að barnabótakerfið sé tekið í gegn og lagað enda er fáránlegt hvað bæturnar byrja að skerðast við lágar tekjur. Það þarf að laga.

Þetta er ný nálgun, þetta er ný hugsun en málið verður ekki byggt á lofti. Þetta er samtal sem er búið að eiga sér stað í hundruð ára. Margar rannsóknir hafa verið gerðar og þegar hv. þingmaður talar um að við séum að kasta 11,2 milljörðum á glæ í eitthvert verkefni sem við vitum ekki hvort muni virka má nefna að fjölmargar rannsóknir styðja við það að þetta muni skila sér til baka. Það er sparnaður í heilbrigðiskerfinu, sparnaður í félagsmálakerfinu, sparnaður í refsivörslukerfinu og eins og kollegi minn, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, sagði áðan er þetta sparnaður í brottfalli nemenda.

Að sjálfsögðu er ég sammála því að það þurfi að greina málið, enda talaði ég um það í ræðu minni að áður en við færum af stað í einhverja svona breytingu þyrftum við að finna góða leið til að mæla árangur. Það er nokkuð sem við gerum allt of lítið af þegar við erum að prófa nýja hluti. Við breytum lögum og gerum eitthvað nýtt en svo er enginn að mæla árangurinn, ekkert er fylgst með og við vitum ekkert hvort það virkar eða ekki. Það þarf að gera, en við megum heldur ekki hika við að prófa nýja nálgun og sjá hvernig hún virkar. Ég er talsmaður þess að við stundum meiri tilraunastarfsemi þegar kemur að því að finna ný kerfi og nýjar leiðir sem þjóna hagsmunum okkar og samfélagsins betur. Mér finnst greinilegt að skilyrðingar og skerðingar í núverandi kerfi virka ekki fyrir okkur. Við sjáum það bara í fátæktinni sem þrífst hér. Við höfum ekki enn getað kippt í lag og ég legg til að við prófum eitthvað nýtt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)