150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

höfundalög.

456. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég setti mig á mælendaskrá til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál og ég ætla að fara yfir, vonandi ekki alveg í korterslöngu máli en í einhverju máli, höfundarétt og hvernig hann getur þvælst fyrir annarra manna eignarrétti og samfélaginu í heild sinni.

Nú þykir mér hins vegar ræða mín ekki merk miðað við þá sem við heyrðum hér á undan. Ég verð að segja að ég tek undir hneykslan hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar á því að höfundaréttur, eins og hv. þingmaður lýsti hér, standi í vegi fyrir því að húsnæði sé bætt eða því breytt til að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks. Það þykir mér algjörlega galið svo að sterkari orð séu ekki notuð. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það og ég ætla að láta eiga sig að endurtaka það nema bara að ég verð að segja að ég vissi það ekki og skammast mín hálfpartinn fyrir að hafa ekki gripið þetta fyrr vegna þess að þetta er hreint út sagt ótrúlegt.

Þá fer ég aðeins út í það sem ég ætlaði að fjalla um og það er höfundaréttur í aðeins víðari skilningi. Höfundaréttur gildir um hönnun mannvirkja, svokallaðan arkitektúr, og að því leyti er hann alveg skiljanlegur. Áður en ég fer að telja upp rökin sem ég vil telja fram fyrir þessu frumvarpi sérstaklega vil ég minna á að fyrsta setningin í stefnu Pírata um höfundarétt er sú að höfundar hafi rétt á því að hagnast á vinnu sinni þannig að hér stendur ekki maður sem er á móti höfundarétti og er ekki fyrir flokk sem er á móti höfundarétti. Hins vegar skiptir máli hvernig hann virkar. Það skiptir máli að höfundaréttur gangi ekki í berhögg við réttindi annarra, þar á meðal eignarrétt annarra.

Þá kem ég mér aðeins meira að efnisinnihaldinu. Höfundaréttur er tegund af eignarrétti. Það eru öll fræðin, þau snúast um að höfundaréttur sé eignarréttur. Stundum virðist hann hins vegar vera rétthærri hefðbundnum eignarrétti og það er það sem ég sé í þeirri klausu sem hér er lagt til að verði felld brott, nefnilega það að einhver hannar hús, hann á hönnunina, gott og vel, síðan kaupir einhver húsið eða einhver byggir húsið og þá hlýtur sá aðili að eiga húsið. Það að eigandi húsbyggingarinnar geti ekki breytt henni, ekki einu sinni til að koma í veg fyrir slysagildrur eða til að gera hana aðgengilega fyrir fatlað fólk hlýtur að ganga á eignarrétt þess aðila sem á húsið.

Þetta er auðvitað ekki eina dæmið þar sem við sjáum réttindi eins rekast á við réttindi annars. Þá þurfum við að hafa svolítið á hreinu hvaða undirliggjandi prinsipp það eru sem við erum að reyna að halda í heiðri. Það eru fleiri dæmi um þetta og kannski algengara nú til dags að maður sjái þetta í tæknimálum. Eitt dæmi er það sem er kallað DRM, á ensku Digital Rights Management. Ég kann hreinlega ekki íslensku þýðinguna eða man hana a.m.k. ekki. Hún felur það í sér að maður kaupir sér lagatæknilega afnotarétt að efni og það er einskiptisgjald en síðan getur viðkomandi ekkert gert við það nema það sem sá sem seldi það leyfir honum að gera við það. Það sem er alvarlegra er ef viðkomandi kaupir sér eitthvert tæki, t.d. vídeótæki, sem er með DRM-tækni í sér til að passa að DRM-tæknin virki. Segjum að ég eigi vídeótækið af því að ég keypti það. Hvernig lærði maður að laga vídeótæki í gamla daga? Jú, maður opnaði þau og fiktaði. Það er alveg eins með hugbúnað í dag, alveg eins með græjur í dag og tölvur, maður vill geta opnað tækin, fiktað í þeim, lært eitthvað af því og breytt í eitthvað. Það er spennandi og gaman. Það er hollt og fræðandi. Lögin í dag eru þannig að það má ekki. Það má ekki breyta þeim þannig að þessi DRM-tækni virki. Við höfum sett alls konar takmarkanir á rétt eigenda tækja og upplýsingabita eins og afþreyingarefnis eða upplýsingabyggðra vara sem eru til að vernda eignarrétt eða útfærsla á eignarrétti einhvers annars aðila sem þó hefur selt það neytandanum.

Þarna er ákveðin mótsögn, virðulegi forseti. Ef ég kaupi mér vídeótæki, tölvu, bíl eða hvað sem er má ég að sjálfsögðu fikta í því tæki eins og mér sýnist. Ef það passar ekki við viðskiptamódel einhvers annars — búhú, þá er það bara vandamál þess aðila. Viðkomandi aðili þarf að gjöra svo vel að finna viðskiptamódel sem passar við minn eignarrétt, það sem hlýtur að tilheyra mér.

Eins og réttindafræði almennt eru hlutirnir ekki alveg það einfaldir að það sé hægt að yfirfæra þennan rökstuðning á nákvæmlega allar aðstæður, öll kaup eða allan eignarrétt. Þetta er til að sýna fram á að það er ekki einfaldlega hægt að slengja fram mikilvægi eignarréttarins og þar af leiðandi líta á höfundarétt sem einhvers konar heilaga útfærslu á eignarrétti þegar kemur að hugmyndum og upplýsingum. Það er hægt að ganga lengra, það er hægt að tala um hvernig t.d. framfylgni ákveðinna útfærslna á höfundarétti getur gengið í berhögg við tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs.

Það er ekkert langt síðan stungið var upp á því í fúlustu alvöru að hlera allar nettengingar á Íslandi til að koma í veg fyrir að fólk bryti höfundarétt. Sú hugmynd kviknaði í ákveðnu þekkingartómarúmi samfélagsins þegar internetið var nýtt og fólk vissi ekki hvað það var og hverju nákvæmlega það var að stinga upp á. Sömuleiðis er núna voða vinsælt að koma með hugmyndir að því að allir vefir sem séu með svo og svo marga notendur skuli fara í gegnum allt efni og sía út það sem ekki er búið að sýna fram á að standist einhver höfundaréttarskilyrði. Það kemur í veg fyrir að fólk nýti t.d. annað efni til að iðka tjáningarfrelsi sitt, sem dæmi með tilvitnunum til að vitna í eitthvað sem er höfundaréttindavarið.

Þegar einhver stingur upp á að breyta útfærslunni á höfundarétti eða framfylgja honum með einhverjum öðrum hætti er eitt það fyrsta sem einhverjum dettur í hug dómsdagsspár um að ef eitt sé heimilt eða ekki bannað eða þetta ekki gert hrynji allur listaverkaiðnaðurinn og þá fari allt til fjárans. Þetta er sannarlega rangt, virðulegi forseti. Þetta var sagt þegar plöturnar komu, þá áttu allir að hætta að halda tónleika. Þetta var sagt þegar kassetturnar, snældurnar eða hvað sem maður kallar þær komu, þá skyndilega átti enginn lengur að gefa neitt út. Þessar spár hafi aldrei ræst. Þær rætast aldrei og hafa aldrei ræst. Þegar internetið kom átti aldeilis að hætta að gefa út geisladiska. Ókei, allt í lagi, það var hætt að gefa út geisladiska en það er líka allt í lagi vegna þess að það eru komnar betri leiðir til að dreifa tónlist þótt viðskiptamódelið gamla sé farið út í hafsauga og megi það aldrei koma aftur. Það er samt ekki skortur á tónlist í dag. Það er ekki eins og það sé skortur á kvikmyndum eða skortur á afþreyingu. Markaðurinn breytist og hann getur breyst rosalega mikið og rosalega hratt. Þá er ekkert skrýtið að viðskiptamódelið þurfi að breytast mjög hratt líka og það getur verið sársaukafullt. Það getur valdið jarðskjálfta í tilteknum iðnaði, t.d. kvikmyndaiðnaði eða tónlistarbransa. Ég hef fullan skilning á því en eins og ég hef nefnt nokkrum sinnum áður getur sá sem hér stendur eiginlega ekkert sem ekki varðar höfundarétt. Ég kann að búa til tónlist, ég get skrifað texta, haldið ræður og búið til hugbúnað. Þetta er u.þ.b. það eina sem ég hef tileinkað mér af einhverri færni í lífinu. Þetta er allt saman eitthvað sem varðar höfundarétt. Faðir minn er hljóðmaður, ekki að það komi endilega málinu við, og móðir mín kvikmyndagerðarmaður. Þau vinna við höfundarétt. Ég segi ekki að ég hafi alist upp í stúdíói en ég var mjög mikið í stúdíóum og mikið í kringum vinnu foreldra minna í æsku þannig að ég vil ekki að þetta fólk sem ég kynntist í æsku verði atvinnulaust. Ég vil ekki að foreldrar mínir verða atvinnulausir og ég vil ekki verða atvinnulaus sjálfur. Maður rekst bara á það þegar höfundarétti er framfylgt með hefðbundnum hætti án tillits til áhrifa hans á réttindi annarra að hann er ekki heilagur og má ekki vera það. Útfærslan á honum er ekki heilög og viðskiptamódelin sem byggja á tilteknum tæknilegum takmörkunum er ekki heilög heldur. Það er ekki heilagt að selja tónlist í formi geisladiska. Það er ekki heilagt að selja hana í formi Spotify eða Netflix heldur. Vel má vera að þessi tækni úreldist einn daginn og þá þarf eitthvað annað að koma í staðinn. Þannig er bara lífið í samfélagi sem breytist, þroskast og þróast. Í samfélagi sem er frjálst getur enginn einfaldlega ætlast til þess að hafa lifibrauð af sama viðskiptamódelinu út ævina, hvað þá eftir ævina.

Það dregur mig út í það sem hv. 12. þm. Suðvest., Guðmundur Ingi Kristinsson, nefndi áðan, að höfundarétturinn gildir ekki bara á meðan höfundurinn er á lífi heldur í 70 ár eftir dauða hans sem að mínu viti er algjörlega galið. Í raun og veru fæ ég ekki betur séð en að það sé hugsað alfarið til þess að stór fyrirtæki sem hafa mikla fjárhagslega hagsmuni geti áfram notið höfundaréttar af verkum löngu látinna höfunda geti haldið áfram að græða fullt af peningum, ekki fyrir höfundinn heldur fyrir sig og fyrirtækin sem eiga dreifingarrétt að Mikka mús frá 1980 eða hvað sem er. Ég hendi bara inn einhverju ártali af handahófi. Þessi fyrirtæki finnst mér ekki hafa rétt á einkaleyfi á því að búa til meira af eða dreifa hluta af því sem er orðið hluti af menningu okkar.

Ímyndum okkur að Biblían væri enn varin af höfundarétti. Væri það gott fyrir Biblíusölu? Hvað ef víkingasögurnar væru enn varðar af höfundarétti? Það væri ekki gott, betra er að hafa það frjálst. Við höfum höfundarétt til að reyna að búa til einhver viðskiptamódel fyrir höfunda, ef ekki til að knýja fram listsköpun þá af einhverjum sanngirnissjónarmiðum sem ég minni á að fyrsta setningin í stefnu Pírata tekur undir og byggir restina af sinni stefnu á. Boðskapur minn hér er sá að við eigum ekki að líta á höfundarétt sem heilagan. Við eigum ekki að líta á útfærslur hans sem heilagar. Við eigum ekki að líta á viðskiptamódelið sem heilagt. Þetta mál finnst mér undirstrika að stundum göngum við helst til langt þegar kemur að höfundarétti og látum höfundarétt þvælast fyrir augljósri framþróun eins og breytingum á húsnæði til að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks. Þá er hann á villigötum. Ég hugsa að flestir séu sammála því þegar allt kemur til alls. Ég er samt viss um að Sjálfstæðisflokkurinn getur fundið ýmislegt tæknilegt að þessu, t.d. að byrja á röngum enda eða hvað svo sem hann notar sem tylliástæðu fyrir því að vera á móti máli stjórnarandstöðunnar þann daginn. Eftir stendur að við vitum alveg hvað er rangt í vandamálinu sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson lýsti. Við vitum það og það þarf engar lagaflækjur til að skilja það. Við erum með húsnæði og fatlaða manneskju sem þarf að nota það húsnæði. Það má ekki breyta því til að fatlaða manneskjan geti notað það. Við vitum að þetta er rangt. Það er eitthvað rangt við þetta og það er augljóst. Það þarf enga lögfræðiþekkingu til að sjá það. Það þarf engar heimspekilegar vangaveltur um eignarrétt heldur.

Að lokum vil ég bara þakka hv. þingmönnum Guðmundi Ingi Kristinssyni og Ingu Sæland fyrir að leggja frumvarpið fram. Ég hefði sjálfur verið með á þessu máli ef leitast hefði verið eftir því. Þetta er ekki gagnrýni, það er alvanalegt að flokkar vilji frekar leggja mál fyrir sjálfir en að leita að meðflutningsmönnum. Það er alvanalegt og við gerum það sjálf í Pírötum. Ég hlakka til að sjá málið í nefnd sem ég geri ráð fyrir að verði allsherjar- og menntamálanefnd, eða hvað? Ég er ekki alveg með það á hreinu, virðulegur forseti. Ég vona það en óháð því vona ég að málið nái fram að ganga og ég hlakka til að sjá það koma út úr nefnd sem ég býst fastlega við að það geri.