150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

höfundalög.

456. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég held að við séum orðnir sammála um að litla klásúlan sem ég legg til breytingu á geri það að verkum að í sjálfu sér ættum við að taka upp lögin í heild sinni og endurskoða þau frá grunni. Það er mjög gaman að lesa þessi lög og ég er búinn að stauta mig nokkrum sinnum í gegnum þau. Þau eru eiginlega stórmerkileg, sérstaklega sem varða þessi 70 ár eftir dauða. Ég segi fyrir mitt leyti að ég næ því ekki. Ég skil þetta ekki og ég held að þetta sé gamalt. Sérstaklega í því samhengi verðum við líka að sjá til þess að vera — ég ætla að taka einfalt dæmi. Ég bý í íbúð og velti fyrir mér hvort ég gæti búið áfram í henni ef ég lenti í hjólastól. Í dag myndi ég segja: Nei, ég get það ekki. Get ég breytt henni? Ég segi: Nei, ég get það ekki af því að arkitektinn yrði of dýr. Hvað er þá einfaldast? Það er að flytja og reyna að finna íbúð sem er aðgengileg.

Þetta á ekki að vera svona. Við eigum að sjá til þess að þetta sé ekki svona í praxís.

Hv. þingmaður hefði viljað vera með á þessu máli og ég hefði alveg örugglega viljað hafa hann með en þetta fór hratt inn. Ég keyrði málið áfram í einum hvelli vegna þess að mér blöskraði þegar ég rakst á alvarlegt mál í því samhengi sem olli eiginlega tjóni og gat skapað stórhættu í þeirri þröngsýni að ekki sé hægt að breyta hlutunum til að þeir gagnist öllum, sérstaklega varðandi slysahættu. Það finnst mér alveg grafalvarlegt mál og þess vegna lagði ég frumvarpið fram í hvelli.