150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

könnun á hagkvæmni strandflutninga.

367. mál
[18:16]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að reifa aðeins tvær breytingar sem mér finnst skipta máli í öllu þessu sambandi, annars vegar þróun í skipagerð sem við höfum svo sem horft á, við sem höfum fylgst með skipaútgerð í jafnvel áratugi. Það snýr auðvitað að breyttri hönnun skipa sem gerir það að verkum að ferming og afferming verður miklu skilvirkari og auðveldari en áður. Þessi þróun heldur augljóslega áfram. Hitt varðar orkuskiptin í útgerðinni. Það er augljóst að í framtíðinni verða komnir fleiri orkugjafar en olían. Við erum bæði að horfa til vetnis og alkóhóls eins og metanóls, bæði sem íblöndun í venjulegt skipaeldsneyti og svo eru komnar vélar sem ganga orðið eingöngu fyrir alkóhóli. Þarna er ágætisinnlegg í orkuskipti í hvers konar útgerð, líka flutningaskipaútgerð. Svona þróun, t.d. varðandi skip, er annar þátturinn sem ég ætlaði að minnast á.

Hinn er það ágæta orð hagkvæmni. Hagkvæmni er í nútímanum ekki lengur eingöngu eitthvert fjárhagslegt atriði. Ýmislegt annað er komið inn í. Hagkvæmni er orðin tvíþætt, þríþætt eða jafnvel margþætt. Mig langar að nefna ákveðna þætti. Hv. flutningsmaður, Ásmundur Friðriksson, fór yfir m.a. vegaslit. Það er augljóst mál að það er mjög hagkvæmt að minnka álag á vegum með bundnu slitlagi sem aðallega er ekið á með slíkan flutning. Ég ætla að nefna loftmengunina vegna þess að hún er líka margþætt. Við erum að tala um sótmengun og brennisteinssambönd sem fylgja allri olíubrennslu. Þó að nú sé ekki lengur leyfilegt að brenna svartolíu innan landhelginnar er engu að síður brennisteinsinnihald eftir í hefðbundinni annarri olíu sem er notuð á skip.

Svo eru auðvitað kolefnisgösin sem fylgja sem við erum að reyna að minnka losun á. Loks er ýmisleg önnur loftmengun eins og köfnunarefni.

Við skipaflutninga er það staðreynd að per hvern rúmmetra flutnings er minni mengun af þeim efnum sem ég var að telja upp en þegar um er að ræða flutningabíla með mörg hundruð hestafla vélar sem þeyta áfram einungis örfáum tugum tonna af flutningi.

Ég vil líka nefna lægri rekstrarkostnað almennt per rúmmetra flutnings þegar um er að ræða skip á móti slíkum flutningabílum.

Að lokum vil ég nefna eitt enn sem skiptir miklu máli og það er öryggi á vegum. Það er staðreynd að þó að við eigum að mestu leyti gríðarlega mikið af flinkum bílstjórum sem aka tröllunum eftir vegunum er aukið öryggi fólgið í því að fækka þeim eða minnka álagið á vegina, minnka álagið á umferðina, fækka slysum, hvort sem er á þeim sjálfum, bílstjórunum og bílunum, eða á öðrum. Hvernig sem á það er litið skiptir þungaumferð um vegina máli upp á öryggismálin.

Þegar þetta er sagt er alveg ljóst að flutningar innan lands verða alltaf að einhverju leyti tímaháðir. Það eru vörur sem þurfa sinn tíma og þarf að flýta afgreiðslu þeirra eða flutningum þannig að á endanum mun þessi flutningageiri innihalda flutningabíla áfram að einhverju leyti, loftflutninga að einhverju leyti og svo það sem hér um ræðir og þarf að endurskoða mjög vandlega, strandsiglingar.

Að þessu sögðu lýsi ég yfir stuðningi við framlagningu þessa máls og frekari þinglega meðferð þess og þakka meðflutningsmönnum og flutningsmanninum sjálfum, höfuðpaurnum, fyrir samvinnuna.