150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

könnun á hagkvæmni strandflutninga.

367. mál
[18:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, Ásmundi Friðrikssyni, fyrir ræðuna og kynningu á þessari þingsályktunartillögu sem ég er meðflutningsmaður að ásamt sex öðrum hv. þingmönnum úr fjórum þingflokkum sem segir ýmislegt um áhugann á þessari tillögu. Tillagan gengur út á það að hagkvæmni vöruflutninga með skipum meðfram ströndum landsins verði könnuð af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmiðin með tillögunni eru nokkur. Í fyrsta lagi má nefna að með strandflutningum, hvort sem er í minna eða meira mæli, dregur úr akstri flutningabifreiða eftir vegum landsins með tilheyrandi sliti á vegunum. Eins og kemur fram í tillögunni slíta þungaflutningabifreiðar vegum hundrað eða þúsund sinnum meira en léttar fólksbifreiðar. Einnig er það markmið með tillögunni um strandflutninga að létta umferð á vegum landsins sem eru eins og raun ber vitni afskaplega vanbúnir til að taka við aukinni umferð eins og við höfum séð á undanförnum árum. Það er næsta augljóst, herra forseti, að útblástur gróðurhúsalofttegunda með slíkum flutningum yrði talsvert minni með skipum en með flutningabifreiðum á þessum tímum, einmitt þegar allt miðar að því að leitast við að minnka mengun og það fótspor sem mannkynið skilur eftir sig til skaða fyrir komandi kynslóðir.

Einnig er nefnt í tillögunni að strandflutningaskipin sé einnig unnt að nota til að flytja sorp til þeirra staða þar sem því er fargað og yfirleitt urðað í dag. Þannig tengist þessi tillaga tillögu sem ég flutti í september sl. um að könnuð yrði hagkvæmnin af því að reisa hér á landi hátæknisorpbrennslustöð sem mengi lítið en geti brennt mestallt það sorp sem við skiljum eftir okkur og náum ekki að endurvinna. Ég hef mælt fyrir þeirri tillögu tvisvar sinnum og hún gengur út á það að hér verði reist slík stöð til að við séum ekki að urða sorp frekar en orðið hefur á undanförnum árum. Það eru milljónir tonna sem höfum urðað síðustu örfá ár og áratugi og sumt af þeim úrgangi er afskaplega mengandi. Við höfum slæmt orðspor á okkur fyrir þetta og ég vil að við hættum því og förum að haga okkur eins og sú umhverfisvæna þjóð sem við þykjumst vera. Við getum þá kinnroðalaust talað fyrir því að við förgum okkar sorpi á eins umhverfisvænan hátt og mögulegt er. Þar er ekki gert lítið úr endurvinnslu. Hún getur jafnframt aukist og þróast eins og mörg ánægjuleg dæmi eru um.

Um leið og hagkvæmni strandflutninga yrði könnuð yrði kannað í leiðinni hversu mikið af slíku sorpi er flutt eftir vegum landsins núna þegar urðunarstaðir eru orðnir færri en verið hefur. Brennslustöðvar sem voru á nokkrum stöðum á landinu hafa verið aflagðar vegna mengunar og þetta hefur valdið því að sorp er flutt landshluta á milli í miklu magni. Hvað er það mikið? Hvað er það þungt? Hvað eru það margar ferðir, hversu margir kílómetrar og hversu mikill útblástur? Þetta yrði jafnframt kannað, þ.e. sparnaðurinn við að flytja það með skipum.

Hugmyndin um að slík strandflutningaskip geti einnig gegnt hlutverki björgunarskipa í neyðartilvikum er mikillar athygli verð núna þegar við horfum upp á að skipaferðir í kringum landið hafa aukist mjög á undanförnum árum og munu hugsanlega aukast miklum mun meira ef skipaleiðir í kringum norðurpólinn opnast á komandi árum með bráðnun íss á þeim slóðum.

Herra forseti. Við erum hreinlega ekki vel í stakk búin til að mæta því ef stór skip lenda í sjávarháska við landið. Þá getur verið langt í hjálp og gott væri ef slík strandflutningaskip væru t.d. búin öflugri dráttargetu. Okkur hefur orðið tíðrætt um almannavarnir í vetur og þá er rétt að benda á að þarna er um vá að ræða sem við erum e.t.v. mest berskjölduð gagnvart. Hér koma tugir ef ekki hundruð skemmtiferðaskipa nú þegar, sigla í kringum landið og við landið. Sem betur fer hafa ekki orðið nein slys þar en ef slík skip lenda í sjávarháska erum við vanbúin. Við erum með mjög öflugt varðskip en það er bara eitt og það er þá kannski statt hinum megin við landið. Slík strandflutningaskip sem myndu gegna einhvers konar varaafli í þessum efnum væru mjög góð viðbót við þann viðbúnað sem við höfum nú þegar, mjög góð sem og ódýrari og myndu gegna öðru hlutverki þess á milli.

Einnig er í tillögunni gert ráð fyrir að þessi skip verði útbúin þyrlupalli sem er samandreginn eða hægt að leggja saman þannig að minna fari fyrir honum en í neyð sé hægt að lenda á slíkum skipum. Tækninni fleygir fram.

Eitt markmiðið með tillögunni er öryggi fyrir afskekktar byggðir. Við höfum horft upp á það undanfarið í nýafstöðnum hamförum sem hér hafa gengið yfir, eins og veðurhamfarirnar fyrir norðan, snjóflóð fyrir vestan og vá vegna eldgosahættu á Reykjanesi, að menn hafa leitt hugann að því hver geta okkar sé sem og skipakostur. Við eigum eitt gott varðskip og tvö eldri þannig að það yrði mjög góð viðbót ef þau gætu jafnframt sinnt strandflutningum og flutt vörur og sorp á milli landshluta.

Einnig má nefna það, eins og hefur komið fram í máli þeirra sem töluðu á undan mér, að strandflutningar verða ódýrari en flutningar á landi, að því slepptu þegar talað er um mengun eða slit á vegum.

Varðandi eignarhald og rekstur á slíku skipi látum við ráðherra það eftir í tillögunni að kanna bestu útfærsluna á því hvort þetta væri samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga eða ríkis, sveitarfélaga og jafnvel einkaaðila, hvort þetta yrði eitt skip eða tvö, hver stærðin á þeim yrði og allur útbúnaður, en að öðru leyti verði ráðherra falið að kanna allar hliðar þessa máls. Ég legg áherslu á að kostnaðurinn verði kannaður sem og kostirnir og gallarnir við tillöguna og slík skip og þar verði tekið inn í mengun, slit á vegum, umhverfisþættir, útblástur gróðurhúsalofttegunda, sorpflutningarnir og björgunarhlutverkið, þ.e. allt það sem við höfum nefnt, og ráðherra muni svo skila skýrslu og kynna málið fyrir Alþingi.

Í tillögunni er gert ráð fyrir 1. apríl nk. en ég geri ráð fyrir að í nefnd verði þessi dagsetning sem er mjög nálægt okkur færð eitthvað aftar.