150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

matarúthlutanir.

[10:41]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í Fréttablaðinu í dag er að finna viðtal við Önnur H. Pétursdóttur, formann Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Þar kemur fram að vegna Covid-19 hefur verið tekin sú ákvörðun að hætta úthlutun á matvælum til skjólstæðinga Mæðrastyrksnefndar. Í hverri viku treysta hundruð heimila á matarúthlutun frá Mæðrastyrksnefnd þar sem þau hafa hreinlega ekki efni á að kaupa mat. Nú hefur þeirri aðstoð verið hætt og í sömu frétt kom fram að hvergi er fjallað í viðbragðsáætlunum Almannavarna um fólk sem lifir í svo mikilli fátækt að það getur ekki séð sér farborða. Þessi faraldur sem nú gengur yfir mun koma til með að bitna einna verst á þeim sem hafa lágar eða ótraustar tekjur. Ég hef saknað þess á undanförnum dögum að heyra forsætisráðherra ræða það hvernig ríkisstjórn hennar ætli að tryggja að Covid-19 muni ekki hafa alvarleg áhrif á þá sem búa við fátækt í samfélaginu, enda er það einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins. Við höfum nýlega fengið fregnir af því í gegnum þáttinn Kveik um fátækt á Íslandi þar sem komu óhugnanlegar tölur fram um fjölda fólks sem lifir í fátækt hér á landi.

Forseti. Spurningar mínar í dag eru einfaldar. Hver tryggir þeim mat sem ekki hafa efni á honum þegar starfsemi eins og Mæðrastyrksnefnd leggst niður sökum hættu á smiti? Hver tryggir að þeir landsmenn sem eru í sóttkví eða einangrun hafi matvæli? Hvert fara heimilislausir í sóttkví eða einangrun og hver ber ábyrgð á því að fylgjast með heilsu þeirra?