150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

matarúthlutanir.

[10:45]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég þakka svörin og vona svo innilega að farið verði í þær aðgerðir að tryggja að þessi viðkvæmasti hópur fólks í samfélaginu þurfi ekki að líða fyrir þessar aðgerðir og að við verndum þetta fólk.

En nú blasir einnig við okkur kulnun í efnahagslífinu sem gæti jafnvel leitt til kreppu. Eins og við vitum vel á Íslandi geta efnahagsþrengingar haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfið. Eftir síðasta efnahagshrun þurfti kerfið að þola áralangan niðurskurð sem hafði langvarandi áhrif. Nú tökumst við á við eina alvarlegustu farsótt í manna minnum hér á landi sem leggst á heilbrigðiskerfi sem hefur allt of lengi búið við vanfjármögnun auk þess sem kjör og starfsaðstæður fagstétta innan heilbrigðiskerfisins hafa ekki verið með þeim hætti sem best verður á kosið. Covid-19 ætti að vera skýr áminning til okkar um að láta næstu efnahagslægð ekki hafa viðlíka áhrif.

Ég spyr því: Hvernig ætlar ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra að tryggja að þessi efnahagslægð hafi ekki neikvæð áhrif á heilbrigðiskerfið? Ætlar hún að halda áfram þeirri innviðauppbyggingu sem nú á sér stað í heilbrigðiskerfinu og tryggja að við verðum í stakk búin til að takast á við afleiðingar þessa faraldurs og þess næsta?