150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

staðan vegna Covid-19.

[10:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Það er í rauninni allt breytt, það sem var nokkuð viðráðanlegt í gær er orðið ansi erfitt og eiginlega miklu meira en það. Síðan voru auðvitað erfiðar fréttir og skrýtnar svolítið sem við fengum frá Bandaríkjunum í morgun þar sem landinu er lokað og sett á ferðabann þar í 30 daga, algjörlega án þess að upplýsa vini eins og Ísland um þá ákvörðun. Það er einmitt á svona tímum, virðulegi forseti, sem við verðum að standa saman og þó að ég gagnrýni það að fram að þessu hafi upplýsingagjöfin ekki endilega verið neitt sérstök, sérstaklega gagnvart stjórnarandstöðunni, þá fagna ég því sérstaklega að hæstv. forsætisráðherra hefur boðað til fundar formanna eftir hádegi.

Það skiptir máli að við leiðtogar stjórnmálaflokka stöndum saman, að við förum ekki að ala á hræðsluáróðri, að við vinnum saman þjóðinni til heilla og að við reynum líka að tengja meira við atvinnulífið, ekki eingöngu atvinnurekendur heldur líka launþegahreyfinguna. Núna skiptir öllu máli að miðla upplýsingum og auka gagnsæi. Við þurfum að passa upp á fólkið okkar. Við þurfum að vera skýr og vera með skýr svör, upplýsingar fyrir heimilin í landinu, fyrir litlu fyrirtækin, fyrir stóru fyrirtækin, fyrir samfélagið allt, þannig að við komumst í gegnum þetta. Þetta þurfum við að passa og þess vegna bind ég vonir við samtalið og samvinnuna. Ég lýsi því yfir að Viðreisn er einlægt tilbúin til þess að styðja og stuðla að því að við komumst sem best í gegnum þennan storm.

En það er líka spurning, og það er kannski stóra spurningin: Hvernig samfélag erum við síðan að passa upp á að verði hér eftir að storminum er lokið eftir þrjá mánuði? Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt að við róum í sömu átt, að við róum ekki í átt að einangrunarhyggju, ekki að hræðsluáróðri, ekki þar sem lýðræðisleg tæki verða misnotuð í þágu efnahags. Við þurfum að gæta að efnahagslegu svigrúmi en líka að lýðræðið sé varðveitt og þess gætt. (Forseti hringir.) Þetta snýr að því að við róum í átt að samstöðu, að lýðheilsu borgaranna og öryggi og ekki síst að frjálsu samfélagi.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún óttist að alið verði á hræðsluáróðri í tengslum við þau stóra viðfangsefni sem ríkisstjórnin og við öll stöndum frammi fyrir.