150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

staðan vegna Covid-19.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem kom inn á margt í fyrirspurn sinni. Fyrst vil ég segja vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjaforseta sem hann kynnti í nótt um ferðabann til velflestra Evrópulanda, utan Bretlands og Írlands, að íslensk stjórnvöld hafa komið á framfæri mótmælum við bandarísk stjórnvöld. Hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra setti sig strax í samband við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi sem ekki er á landinu og hitti í kjölfarið staðgengil hans og hefur sömuleiðis óskað eftir fundi í hv. utanríkismálanefnd við fyrsta tækifæri til að ræða þá stöðu sem upp er komin. Það undirstrikar þá nauðsyn sem við teljum á því að Alþingi sé eins upplýst og mögulegt er og sé með í ráðum þegar svona atburðir verða.

Ég vil síðan segja, af því að hv. þingmaður nefndi þá stöðu sem vissulega hefur breyst frá einum degi til annars, að tíðindi næturinnar setja allt í nýtt samhengi og það mun skipta máli að við bregðumst við, en við eigum það sem þarf. Við Íslendingar höfum reynslu af ýmsu. Við erum sum hér sem vorum hér stödd 2008 og ég ætla að segja að það minni getur hjálpað okkur á svona tímum. Við vitum hvað við gerðum rangt og hvað við gerðum rétt og sem betur fer gerðum við svo miklu meira rétt en rangt. Það er ástæðan fyrir því að mjög vel hefur gengið á Íslandi undanfarin ár.

Um er að ræða tímabundnar hremmingar sem eru auðvitað fordæmalausar en gleymum því ekki að aðrar þjóðir standa frammi fyrir nákvæmlega sömu stöðu og við. Ég hef þá trú að reynsla okkar og seigla og líka hæfileiki til að standa saman þegar á bjátar muni gera það að verkum að þetta (Forseti hringir.) muni ekki hafa nein varanleg áhrif heldur eins og ég ítrekaði áðan að við komum standandi niður.