150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

staðan vegna Covid-19.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi pólitíska tækifærismennsku. Ég held að við munum alltaf sjá einhverja pólitíska tækifærismennsku í svona aðstæðum en því minna, því betra. Því minna, því betra. Það skiptir máli að sjálfsögðu af því að hv. þingmaður talar um lýðræðið og við erum lýðræðissamfélag. Alþingi mun svo sannarlega þurfa að koma að málum hér og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í vikunni til að styðja við fyrirtækin í landinu og þar með fólkið í landinu, því að atvinnulífið er ekkert annað en fólkið í landinu, munu að sjálfsögðu koma inn í þing þar sem þær verða útfærðar. Þær verða teknar til umræðu á réttum vettvangi, í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, og þá mun þinginu gefast kostur á að fara yfir þetta lýðræðislega, eðli máls samkvæmt, og ég vil segja eftir að hafa verið á Alþingi alllengi að það gildir einu hvaðan gott kemur. Við eigum öll að hlusta eftir góðum hugmyndum sem upp kunna að koma í störfum okkar á vettvangi Alþingis en við verðum líka að vera meðvituð um að um það sem gerist á næstunni mun þurfa að taka ákvarðanir frá degi til dags eins og við sáum hér í morgun.