150. löggjafarþing — 71. fundur,  12. mars 2020.

aðstoð við þá sem minnst mega sín.

[10:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin vegna þess að þetta eru skjólstæðingar hans. Hann er félagsmálaráðherra og hann er barnamálaráðherra. Það eru börn í samfélaginu sem eiga ekki fyrir mat og það eru börn þarna úti sem hafa áhyggjur, foreldrar hafa áhyggjur af börnunum og börnin hafi áhyggjur af því hvernig framtíðin verður. En svo er líka hópur útigangsfólks sem þarf hjálpar við. Við verðum bara að fá svar núna, við eigum að ganga í það að það fólk geti leitað eitthvert. Það geti hringt eitthvað eða sent á netfang beiðni um hjálp. Við verðum að gera þetta strax. Við eigum að sjá til þess að fólkið fái alla þá aðstoð sem á þarf að halda. Þetta eru veikustu einstaklingarnir. Þarna undir er veikt fólk, mjög veikt fólk, með undirliggjandi sjúkdóma og er skelfingu lostið. Það veit ekki hvernig eða hvert það á að leita sér aðstoðar vegna þess að búið er að loka úthlutunarleiðunum. Við verðum að finna leið til að búa til pakka, matarpakka, sem bent hefur verið á að þetta fólk þurfi, og koma þeim til þess og það strax.