150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

afbrigði frá þingsköpum.

[14:18]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Eins og þingheimi er kunnugt hefur embætti ríkislögreglustjóra lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna Covid-19 sjúkdómsins. Viðbragðsáætlun Alþingis hefur verið virkjuð og ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar í samræmi við hana. Miða þær að því að lágmarka smithættu og halda Alþingi starfhæfu.

Á fundi forsætisnefndar í dag var sérstaklega rætt um þátttöku þingmanna á nefndarfundum. Ákvæði þingskapa gera ráð fyrir að alþingismönnum sé skylt að mæta á nefndarfundi, samanber 1. mgr. 17. gr., og gilda um það sömu reglur og um fundarsókn þingmanna, samanber 65. gr. Hefur það verið skilið svo að nefndarmaður teljist mættur á nefndarfund sé hann á staðnum. Af mætingarskyldu nefndarmanns og 22. gr. þingskapa leiðir að nefndarfundur telst aðeins ályktunarbær að meiri hluti nefndarmanna sé staddur á fundinum, samanber 22. gr. þingskapa. Þó að fjarfundabúnaður og símafundir hafi verið notaðir í störfum þingnefnda í fjarveru nefndarmanna getur nefndarmaður sem tekur þátt í fundi með slíkum búnaði ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu um mál, átt tillögurétt eða komið að öðrum ákvörðunum nefndarinnar að óbreyttum þingsköpum.

Forseti leggur því til að veitt verði tímabundin afbrigði frá þingsköpum eins og heimilt er nú samkvæmt 95. gr. þingskapa til að víkja frá 1. mgr. 17. gr. um skyldu nefndarmanna til að mæta á þingfundi og einnig frá 22. gr. um ályktunarbærni nefndafunda þó að þingmenn megi nýta fjarfundabúnað og símafundi við afgreiðslu mála, tillagna eða aðrar ákvarðanir á fundum þingnefnda. Með slíkum afbrigðum yrði vikið frá því skilyrði þingskapa að nefndarmenn þurfi að vera staddir á fundinum til að mynda ályktunarbæran nefndarfund.

Leggur forseti til að afbrigði þessi verði veitt og þau nýtt eftir því sem nauðsyn krefur, fyrst um sinn fram að því að Alþingi geri hlé á fundum sínum um páska. Á þennan hátt er leitast við að skapa nefndarmönnum skilyrði til að sinna nefndarstörfum sínum við núverandi aðstæður.

Forseti mun gefa út nánari leiðbeiningar til formanna fastanefnda um framkvæmd afbrigðanna.

Forseti vill jafnframt upplýsa í þessu samhengi að þingskapanefnd sú sem nú vinnur að endurskoðun laga um þingsköp Alþingis getur eftir atvikum tekist á við að útfæra ákvæði nánar í þingsköpum sem yrðu þá til staðar við aðstæður sem þessar.