150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

afbrigði frá þingsköpum.

[14:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Þetta er mjög góð tillaga. Þetta þýðir að þeir sem geta ekki sótt fundi núna, í þessu tilfelli vegna kórónuveirunnar vegna þess að við viljum hefta útbreiðslu hennar eða hægja á henni, getur nefndavinna samt sem áður átt sér stað á Alþingi. Það er gott. Þetta er gert svona tímabundið og það er frábært.

Ég vona bara að reynslan sýni okkur að þetta ætti að vera eðlilegur þáttur, að ef nefndarmenn geta ekki mætt á nefndarfund sem þeir þurfa að geta mætt á í mörgum tilfellum til að geta sinnt sínu lögbundna hlutverki faglega, sinnt nefndarstarfinu faglega, löggjöf og þingsályktunartillögum á þinginu, nýtum við þessa tækni 21. aldarinnar til að geta sinnt okkar faglega starfi á þingi þrátt fyrir að við getum ekki mætt á fundinn sjálfan. Þetta þarf að vera eðlilegt og meginreglan ætti að vera sú að ef þingmenn úr landsbyggðarkjördæmunum eru t.d. veðurtepptir eða ef þingmaður þarf að sinna veiku barni heima eða einhverjar aðrar góðar, málefnalegar ástæður eru fyrir því sé þessi tækni nýtt.