150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

mótun klasastefnu.

121. mál
[14:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þar sem við göngum nú til atkvæða um tillögu um mótun klasastefnu vil ég þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir góða vinnu við þetta mál og þakka jafnframt þann breiða stuðning sem málið hefur fengið og fjöldi flutningsmanna ber vitni um, en málið á stuðning þingmanna úr öllum þingflokkum á Alþingi. Þá hafa vandaðar umsagnir við málið, nú og áður þegar það hefur verið lagt fram, gefið því aukna vigt og aukið stuðninginn eftir því sem tíminn hefur liðið og málið komið oftar til umfjöllunar í þinginu.

Ég hvet hæstv. ráðherra og starfshóp, eins og hv. atvinnuveganefnd hnykkir svo vel á í sínu nefndaráliti, til að líta til grannþjóða okkar sem segja góða sögu af slíkri stefnu. Lykilatriðið er þó að það skili sér á endanum í klasastefnu sem hlúir frekar að þeim fjölmörgu öflugu, sjálfsprottnu klösum sem leiða af sér ný verkefni, ný störf og ný fyrirtæki, mætum þannig áskorunum framtíðarinnar og eflum samkeppnishæfni atvinnulífsins.