150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreindi í gær útbreiðslu Covid-19 sem heimsfaraldur. Stofnunin lýsir yfir áhyggjum vegna hraðrar útbreiðslu veirunnar og sömuleiðis áhyggjum af aðgerðaleysi margra ríkja. Hún lýsti því líka yfir að það væri ekki of seint að bregðast við og draga verulega úr skaðanum.

Ég vil segja það hér í byrjun þessarar umræðu að íslensk stjórnvöld voru vel undirbúin fyrir þennan faraldur. Það er í algerum forgangi hjá heilbrigðisyfirvöldum að hefta útbreiðslu veirunnar, hlífa fólki í veikri stöðu og lágmarka þannig álag á heilbrigðiskerfið. Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur staðið vaktina síðastliðnar vikur hjá almannavörnum, embætti landlæknis, sóttvarnalækni og Landspítalanum og öllu starfsfólki heilbrigðiskerfisins og almannavarna fyrir viðbrögð þeirra, aðgerðir og upplýsingagjöf sem ég held að við getum öll verið sammála um að hafi verið til mikillar fyrirmyndar og borið þann árangur að draga úr frekara smiti hérlendis hingað til.

Þá er einnig mikilvægt að segja hér að mér hefur þótt ánægjulegt að sjá hve almenningur almennt hefur tekið þessa stöðu alvarlega og fylgt þeim leiðbeiningum og tilmælum sem stjórnvöld hafa sett fram. Það skiptir máli hvernig við gerum hlutina og í lýðræðissamfélagi eins og okkar er upplýsingagjöf lykilatriði. Þar hafa þessir aðilar svo sannarlega staðið vaktina á milli annarra krefjandi verkefna. Það er eðlilegt nú þegar miklar blikur eru á lofti í efnahagsmálum og fólk veltir því fyrir sér bæði hvernig faraldurinn muni þróast en líka þeim áhrifum sem hann mun hafa á efnahagslífið. Stjórnvöld munu ekki hika við að beita öllum þeim úrræðum sem við eigum tiltæk, hvort sem er á sviði efnahagsmála eða heilbrigðismála, til að mæta afleiðingunum til að tryggja öryggi og velferð landsmanna allra, því að um það snýst þetta. Þar skiptir miklu máli að við séum markviss í aðgerðum okkar en líka að við gerum okkar besta til að miðla upplýsingum. Ég vil þakka hér sömuleiðis í upphafi þessarar umræðu formönnum flokkanna fyrir góðan fund áðan. Á morgun munu stjórnvöld eiga fund með aðilum vinnumarkaðarins til að fara yfir þær aðgerðir sem er nauðsynlegt að ráðast í til þess að þetta tímabundna ástand verði ekki varanlegt fyrir fjölskyldur og heimili í landinu.

Ákvörðun forseta Bandaríkjanna í gær um ferðabann frá fjölmörgum löndum Evrópu, þar á meðal frá Íslandi, er áfall sem mun hafa mikil áhrif á efnahagslífið umfram það sem áður hafði verið reiknað með. Íslensk stjórnvöld hafa þegar mótmælt þessari ákvörðun af fullum þunga og gert bandarískum stjórnvöldum grein fyrir þeim mótmælum.

Það er svo, herra forseti, að Covid-19 faraldurinn er ógn við heilsu almennings og ógn við efnahag ríkja. Þó að um tímabundið ástand sé að ræða er óvissa um það hver áhrif faraldursins verða nákvæmlega og hversu lengi þau munu vara. Nú þegar hefur hægt verulega á útbreiðslu veirunnar í Kína þar sem faraldurinn kom fyrst fram. Það eru jákvæðar fréttir en þó er ljóst að á síðustu dögum hefur svartsýni aukist verulega þó að alþjóðastofnanir og greiningaraðilar séu varfærin í spám sínum og þrátt fyrir aðgerðir ýmissa ríkja og seðlabanka um heim allan til að örva atvinnulífið og draga úr óvissunni. Síðustu fréttir gærdagsins um flugbann Bandaríkjanna frá Evrópu næstu 30 daga hafa þegar haft mikil áhrif á hlutabréfamarkaði, úrvalsvísitalan lækkaði um nærri 9% í morgun og bréf í Icelandair um 23%. Það má því segja að þessi faraldur skeki öll opin hagkerfi í heimi og Ísland er að sjálfsögðu engin undantekning enda lítið hagkerfi, opið hagkerfi og berskjaldað fyrir ytri áhrifum af þeim toga sem hér um ræðir þó að við séum vel í stakk búin og staða þjóðarbúsins sé góð til að takast á við vandann.

Neikvæð áhrif þessa faraldurs eru þegar farin að koma fram og birtast m.a. í ört minnkandi eftirspurn sem leiðir til tekjusamdráttar og rekstrarerfiðleika fyrirtækja sem þau munu þurfa að bregðast við. Minnkandi eftirspurnar er þegar farið að gæta í ferðaþjónustu og flugrekstri en hún mun koma fram víðar. Þá er enn fremur ljóst að vandkvæði kunna að hljótast af því ef aðföng til framleiðslu berast ekki. Undirbúningur stjórnvalda hefur miðað að því að gera ráð fyrir hinu versta svo að hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða sem létta höggið fyrir fólkið í landinu og gefa okkur viðspyrnu í efnahagslífinu.

Gjörbreyttar efnahagshorfur þýða að forsendur fjármálastefnunnar eru brostnar og vinna við endurskoðun hennar er þegar hafin og fjármálaáætlun verður að sama skapi lögð fram í maí í stað þess að vera lögð fram á næstu dögum og þá gerum við ráð fyrir að nauðsynlegar forsendur liggi fyrir.

Við þurfum, herra forseti, að horfa til bæði skammtímaviðbragða og langtímaviðbragða til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin, annars vegar þess áfalls sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir, fordæmalaust á okkar sögulegu tímum þó að við getum lesið um ýmsa heimsfaraldra í gömlum annálum í allt annars konar samfélagi en við byggjum nú. Síðan þurfum við að leggja drög að viðbrögðum til næstu ára til þess að tryggja að við komum ekki aðeins standandi úr þessum hremmingum heldur getum brátt farið aftur að blása til sóknar eftir að við munum núna pakka í vörn.

Til að vinna gegn slakanum á næstu árum hefur ríkisstjórnin undirbúið fjárfestingarátak sem felur í sér stórauknar fjárfestingar af hálfu ríkisins til að veita örvun og viðspyrnu í efnahagslífinu. Ég legg á það þunga áherslu að slíkar fjárfestingar þurfi að vera fjölbreyttar og þær þarf að meta út frá ólíkum sjónarmiðum, annars vegar eru hinar hefðbundnu verklegu framkvæmdir á sviði samgangna og bygginga og við vitum að þar er mikil uppsöfnuð þörf. Hins vegar þurfum við að huga að fjárfestingum í tækni, hugviti, þekkingu, rannsóknum, nýsköpun, skapandi greinum, sem við vitum líka að skipta okkur máli til lengri tíma og geta haft áhrif strax. Við hlustum á það sem við erum að heyra utan úr samfélaginu, utan úr feltinu. Það skiptir máli að við fjárfestum í þessum greinum til lengri tíma til að fjölga stoðum efnahagslífsins.

Viðbrögðin til skamms tíma verða margvísleg og munu miða að því að styðja þá einstaklinga og fyrirtæki sem þurfa mest á því að halda vegna faraldursins. Það er besta og skilvirkasta kreppuinnspýtingin og ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt hér að aðgerðir stjórnvalda vegna lífskjarasamningsins í fyrra nýtast vel nú, hvort sem það eru skattalegar aðgerðir sem munu skila almenningi auknum ráðstöfunartekjum á hárréttum tímapunkti, innspýting í félagslegt húsnæði sem skiptir svo sannarlega máli núna eða aðrar félagslegar aðgerðir sem munu skipta okkur máli til að geta tekist á við þessa kreppu.

Við kynntum á þriðjudaginn nokkrar aðgerðir til að styðja við fyrirtækin í landinu. Þar var m.a. fjallað um það hvernig við gætum rýmkað lausafjárstöðu bankanna, hvernig við gætum stutt við fyrirtækin með því að veita þeim fresti á gjalddögum til að fleyta þeim yfir þann öldugang sem nú stendur yfir, hvernig við gætum stuðlað að aðgerðum til að örva eftirspurn og einkaneyslu, markaðsátak þegar glugginn opnast og við sjáum fram á það að fólk vilji fara ferðast aftur og við vísuðum þar einnig til þess fjárfestingarátaks sem Alþingi mun eiga eftir að fjalla um og setja svip sinn á.

Ég vil líka nefna fleiri aðgerðir og þá sérstaklega lagafrumvarp sem von er á inn á þing á næstu dögum og varðar tryggingu á því að laun verði greidd til allra þeirra sem eru í sóttkví. Það lagafrumvarp byggir á samkomulagi stjórnvalda, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem kynnt var í síðustu viku og miðar að því að við munum öll leggja okkar af mörkum þannig að enginn þurfi að óttast um afkomu sína meðan hann er í sóttkví.

Ég vil vekja athygli þingheims á því að ekki eru allar þjóðir að beita því úrræði sem er sóttkví sem við höfum beitt óspart vegna þess að við erum í þeirri einstöku aðstöðu að geta haft meiri yfirsýn yfir smit hér á landi en margar aðrar stærri þjóðir sem eru ekki með jafn fáar inngönguleiðir í landið og við búum að, verandi eyja með einn alþjóðaflugvöll. En fyrir þessu var ekki gert ráð í lögum og þess vegna mun koma fram lagafrumvarp hér á næstu dögum þar sem gert er ráð fyrir því að tryggja þessar aðgerðir.

Ég gæti talað lengi enn en sé að það styttist í tímanum en ég vil segja það að markviss og traust viðbrögð skipta sköpum í aðstæðum eins og við glímum nú við. Aðgerðir stjórnvalda munu miða að því að styðja við atvinnulífið og fólkið í landinu, enda er það tengt órjúfanlegum böndum. Það skiptir máli að þær verði réttlátar og þær verði skynsamlegar og við það munum við leitast. En gerum okkur grein fyrir því sem hér erum að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Það er áskorun sem er mikilvægt að við mætum í sameiningu og leggjum öll okkar af mörkum til að sigrast á henni. Þar er hlutverk okkar allra mikilvægt, bæði ríkisstjórnar en ekki síður þingsins. Við þurfum öll að sýna forystu til þess að við getum tekist á við þessa áskorun sómasamlega.

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja það að þessar hremmingar verði tímabundnar og íslenskt samfélag standi sterkara á eftir en áður. Við þurfum sem samfélag að standa saman við þessar aðstæður og það skiptir máli að við öll sendum þau skýru skilaboð út í samfélagið. Ef við berum gæfu til þess þá hef ég ekki áhyggjur af því að okkur muni ekki lánast að gera þetta eins vel og við getum. Við vitum að þetta verður erfitt en staðan er góð, innviðirnir eru traustir. Við höfum alla möguleika á því að mæta þessari áskorun með sóma.