150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við megum þakka fyrir það þegar við verðum fyrir áfalli eins og því sem nú dynur á okkur að hafa búið í haginn þegar við lifðum betri tíma. Við höfum notað undanfarin ár til að gera upp skuldir, bæta stöðu okkar gagnvart útlöndum, safna í forða, gjaldeyrisforða, og við höfum í mörg ár skilað miklum afgangi. Allt þetta kemur okkur mjög til góða þegar við stöndum nú frammi fyrir krefjandi aðstæðum. Af hálfu Seðlabanka Íslands var því lýst þannig í gær að við hefðum líklega aldrei í sögunni verið jafn vel undir það búin að takast á við efnahagslegar þrengingar eins og á við í dag. Samtök atvinnulífsins hafa sömuleiðis lýst yfir ánægju með áform stjórnvalda þegar kemur að því að leysa þann skammtímavanda sem við stöndum frammi fyrir. Vissulega hefur ekki öllu verið svarað um þær aðgerðir en mikilvægast af öllu er að segja strax í upphafi: Við munum ekki sitja með hendur í skauti, við munum stíga fram, við ætlum að mæta fyrirtækjum, við ætlum að bjarga því sem bjargað verður og við erum tilbúin til að ganga langt til að gera einmitt það. Við ætlum að nýta þá stöðu sem við höfum skapað okkur til þess að gera einmitt það. Mál munu koma inn í þingið eftir því sem aðstæður leyfa, þ.e. nauðsynlegur undirbúningstími þarf auðvitað að eiga sér stað eða nauðsynlegur aðdragandi. Við stefnum að því að koma miklu í verk í þessum mánuði.

Mér finnst mjög mikilvægt að halda því skýrt til haga að við erum hér fyrst og fremst að fást við tvíþættan vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil setja heilbrigðisvandann í fyrsta sæti. Við stöndum frammi fyrir þeirri ógn að sú staða geti skapast, ef við náum ekki að stilla nægilega vel saman strengi hér innan lands með samhentu átaki allra, að þolmörk heilbrigðiskerfisins ráði ekki við stöðuna. Það er það versta sem getur gerst. Það er undir okkur sjálfum komið að verulegu leyti hvernig úr því spilast. Við sjáum það frá öðrum löndum að með markvissum aðgerðum er hægt að hafa veruleg áhrif á útbreiðsluhraða þessarar veiru sem smitast mjög ört milli manna. Þetta er algjört grundvallaratriði og verður að koma fremst vegna þess að þarna er um að ræða ógn við heilsu landsmanna. Hingað til hefur það gengið ágætlega. Það er ekki hægt að halda öðru fram en að okkar færasta fólk hafi staðið sig til fyrirmyndar vel í brúnni á erfiðum tímum. Það eru ekki margar vikur síðan málið var ekki einu sinni á dagskrá hér í þinginu eða í þjóðfélaginu. En þetta er staðan í dag og það er ástæða til að hrósa þeim sem hafa farið fyrir aðgerðum til þess að leiðbeina landsmönnum um það hvernig við getum lágmarkað hættuna á því ástandi, sem ég var hér að lýsa að við viljum forðast og aðrar þjóðir eru því miður að fást við með hrikalegum afleiðingum.

Síðan eru það skammtímaefnahagsaðgerðir. Við erum á árinu 2020 að sjá skell. Við trúum því að þetta verði tímabundið ástand. Það getur hins vegar enginn sagt hversu langur tíminn verður. Það er ekkert loforð þarna úti um að eftir að við höfum náð tökum á útbreiðslu veirunnar muni ferðafólk strax taka að streyma til Íslands. Þessu hefur enginn lofað. Við getum ekkert gengið út frá því í okkar áætlunum. En við verðum einfaldlega gera okkar besta og á meðan þetta ástand varir þá þurfum við að hjálpa fyrirtækjum í gegnum erfiðan tíma með því að veita lausafjárfyrirgreiðslu. Það mun ríkissjóður gera eftir öllum mögulegum leiðum. En það eru ekki auðveldar ákvarðanir sem þingið þarf að taka í þessu efni. Ég get tekið sem dæmi að það eru tugir milljarða á gjalddaga á mánudaginn. Tugir milljarða. Á að veita hlutfallslegan afslátt? Á að setja þak á greiðslufrestinn, þ.e. á það sem má fresta greiðslum á o.s.frv.? Þetta eru ákvarðanir sem við erum að taka til skoðunar í dag og munum leggja fyrir þingið, vonandi á morgun á þingfundi, til umræðu og vonandi til afgreiðslu. Það er dæmi um stóra ákvörðun sem við höfum ekki mikinn tíma til að hugsa um en verðum að bregðast við.

Sömuleiðis verður fjármálakerfið að sinna sínu hlutverki. Við ætlum fjármálakerfinu að sinna fyrirtækjum og heimilum við þessar aðstæður. Nú þegar sjáum við að Seðlabankinn er byrjaður að hreyfa sig. Við sjáum lægstu vexti í sögunni. Það skiptir máli. Það dugar ekki sem einstök aðgerð til að leysa hvers manns vanda. En það skiptir verulega miklu máli vegna þess að það veitir ákveðið svigrúm og súrefni. Sömuleiðis munu aðgerðir sem snúa að fjármálaeftirlitshlutverki Seðlabankans geta skipt máli eins og fram hefur komið í umræðunni og mun áfram verða til umræðu af hálfu bankanna eftir því hvernig úr spilast. Þar erum við augljóslega að ræða um það að bönkunum sé betur gert kleift að sinna hlutverki sínu í þessu efni, að greiða fyrir frestun gjalddaga, frekari lánafyrirgreiðslu o.s.frv. Í mjög einföldu máli þá gengur ekki á sama tíma að það sé rekin mjög aðhaldssöm stefna gagnvart fjármálakerfinu þegar þessar aðstæður hafa skapast. Við höfum verið að gera kröfu um söfnun í forða hjá bankakerfinu á undanförnum árum vegna þess að við höfum verið að fara í gegnum góðæri. Nú koma erfiðari tímar og þá hljótum við að þurfa aðeins að gefa lausari tauminn fyrir fjármálakerfið án þess að fara fram úr okkur.

Þetta verður gríðarlega mikilvægt tímabil. Ég ætla að lýsa því yfir hér að ég hef trú á því að mestu mistökin sem við gætum gert hér í þinginu væru að ganga allt of skammt. Það væri betra fyrir okkur að nýta þá góðu stöðu sem við búum yfir til að gera rétt rúmlega það sem þarf vegna þess að sameiginlega tjónið af því að gera of lítið of seint getur orðið miklu meira en tilkostnaðurinn af því að gera aðeins of mikið.

Þetta vildi ég segja um efnahagslega þáttinn sem við stöndum frammi fyrir nú til skamms tíma, í nærtímanum. Síðan í þriðja lagi, sem hefur verið komið inn á í dag, verðum við um leið að hafa getu til að horfa aðeins lengra inn í framtíðina. Ég vil þakka fyrir það að mér heyrist vera góður skilningur á því í þinginu að ríkisstjórnin hefur að minni tillögu ákveðið að slá á frest framlagningu fjármálaáætlunar og taka fjármálastefnuna til endurskoðunar. Mér sýnist að það sé góður skilningur á þessu í þinginu. En það þýðir ekki að verkið verði eitthvað léttara fyrir það að við fáum meiri tíma heldur verðum við að nýta tímann vel og komast að góðri og skynsamlegri niðurstöðu til að viðhalda trúverðugleikanum í opinberum fjármálum við breyttar aðstæður. Það felur m.a. í sér að við teflum fram áætlun sem sýnir hvernig við komumst út úr þessari stöðu sem fyrst þannig að við nýtum þá góðu viðspyrnu sem við höfum í dag í lægri skuldastöðu, í mikilli landsframleiðslu í öllum alþjóðlegum samanburði, til þess að nota komandi ár til sóknar. Og já, ég er sammála þegar menn segja að það hljóti að felast í því að fara í fjárfestingarátak.

Þegar maður horfir svona á stöðuna og trúir því að okkur takist hér á þinginu og annars staðar í stjórnkerfinu að taka réttar ákvarðanir til að fást við þá skammtímaniðursveiflu sem við stöndum frammi fyrir þá er engin ástæða til annars en að vera bjartsýn á þann tíma sem þá tekur við. Það eru augljóslega allar aðstæður til þess að ferðaþjónusta á Íslandi geti að nýju blómstrað, augljóslega. En hvaða tíma það tekur er ekki gott að segja í dag og við þurfum að sýna hvert öðru þolinmæði hvað það snertir að hingað til þingsins getum við eingöngu látið frá okkur fara bestu upplýsingar á hverjum tíma og eins og sakir standa hafa þær haft tilhneigingu til að breytast nánast frá degi til dags. Upplýsingar frá því í síðustu viku, um mögulegar sviðsmyndir út árið 2020, eru einfaldlega úreltar í dag. Og það kann að vera að sviðsmyndirnar haldi áfram að breytast með þeim hætti. Við þurfum að sýna þolinmæði til að lifa við þær aðstæður og taka engu að síður ákvarðanir eftir því sem aðstæður krefjast þegar útsýnið er jafn lítið og ég er hér að lýsa.