150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir að fara hér yfir stöðuna og boðaðar aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. Það hefur komið mjög vel fram í umræðunni að heilbrigðiskerfið hefur skiljanlega verið í algjörum forgangi aðgerða og verður áfram meðan þetta gengur yfir. Eins og margir aðrir vil ég nota tækifærið til að þakka heilbrigðiskerfinu í heild, yfirvöldum og þeim aðilum sem bera ábyrgð á þessum þætti, hæstv. heilbrigðisráðherra, sóttvarnalækni, landlækni og fulltrúa almannavarna, sér í lagi í því teymi sem hefur birst okkur daglega með miðlun upplýsinga um ástandið, smitþróun, viðbrögð, áætlanir og mikilvæga þætti sem snúa að okkur öllum og hjálpar okkur öllum að hugsa um náungann. Það er til fyrirmyndar hvernig að þessu hefur verið staðið og hvernig upplýsingum hefur verið komið á framfæri. Nú þegar við erum óhjákvæmilega að ræða stöðuna, efnahagslegar afleiðingar og hvernig við bregðumst þar við getum við lært af þessu hversu mikilvægt það er að miðla upplýsingum og koma þeim stöðugt á framfæri af öryggi og festu.

Hæstv. ríkisstjórn hefur þegar boðað fjölmargar aðgerðir sem hægt er að fara í strax á tekjuhlið ríkisfjármála, með peningamál á hendi Seðlabankans og átt samráð við Samtök fjármálafyrirtækja sem hafa með bankana að gera. Þetta eru allt aðgerðir sem er hægt að fara í strax og mjög mikilvægt að koma á framfæri nú þegar. Þetta eru helst aðgerðir sem leggja áherslu á að halda atvinnulífinu gangandi og verja þær grunnstoðir sem mynda hagkerfið, sem er auðvitað heimilin og fyrirtækin. Allar aðgerðir hljóta og verða að miða að því að gefa þeim færi á að halda sér gangandi. Enginn dregur dul á að þetta verður ekki auðvelt. Þetta er skafl sem við verðum að vaða í gegnum samstiga og það mun mynda högg á hagkerfið, fyrirtækin og heimilin. Þriðja stoðin, hið opinbera, ríki og sveitarfélög, getur með aðgerðum sem þessum mildað höggið. Ég held að við verðum að horfa þannig á þetta og trúa að höggið verði skammvinnt. Við höfum gert ýmislegt á undanförnum misserum til að mæta því sem við köllum sveiflu í efnahagslífinu. Þar má nefna framlag stjórnvalda til að lenda kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þetta eru 80 milljarðar sem samanstanda af tekjuskattslækkun, húsnæðisaðgerðum, barnabótum, bótum í fæðingarorlofi og fleira. Þetta hefur sitthvað að segja.

Fyrir rúmri viku kynnti hæstv. stjórn líka pakka til að mæta þeim veikleikum í innviðum okkar sem birtust okkur í óveðrinu í desember. Allt þetta hefur sitt að segja. Við rákum ríkissjóð inn á þetta ár með 10 milljarða halla. Allt þetta eru aðgerðir til að mæta sveiflu í efnahagslífinu. Við erum ekki á þeim stað núna, við erum ekki að horfast í augu við þessa stöðu. Þetta er fordæmalaus staða, og miklu stærra og meira sem við förum í gegnum — en það er skammvinnt. Það vill til að við erum með drjúgan gjaldeyrisvaraforða. Við höfum búið í haginn og við getum gert mjög mikið. Við erum í stöðu til þess.

Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra. Það eru til dæmi úr sögunni þar sem það er mjög mikilvægt að gera meira en minna við svona kringumstæður. Ég hvet líka hæstv. ríkisstjórn til að haga málum með sama hætti og gert hefur verið þegar kemur að heilbrigðisþættinum. Þetta eru tveir þættir sem við verðum að hafa í algjörum forgangi nú um stundir og miðla upplýsingum eins reglubundið og mögulegt er og aðgerðum vindur fram á sviði efnahagsmála. Við verðum að gera það af sama öryggi og festu og við eigum að hafa umburðarlyndi fyrir því að fyrsti upplýsingafundur hæstv. ríkisstjórnar í þessum boðuðu aðgerðum hafi verið meira rammi og ekki nákvæm útfærsla en við fáum þó mjög fljótlega að sjá í þinginu útfærðar tillögur sem snúa að þeim aðgerðum sem boðaðar voru.

Það er mjög mikilvægt að við miðlum upplýsingum um það hvað verið er að gera hverju sinni. Það dregur úr óvissu. Óvissa við þessar aðstæður verður alltaf mikil en það dregur úr óvissu og við hættum að tapa huganum í einhverja heildarmynd sem enginn sér inn í heldur höldum athyglinni á því sem við getum gert og erum að gera.

Myndum þannig samstöðu að allar aðgerðir verji stöðu fyrirtækja og heimila og mildum höggið með þeim aðgerðum. Ég styð allar þær aðgerðir sem hafa verið boðaðar og eru allar skynsamlegar. Ég skal þó viðurkenna að ég sé jafnframt fyrir mér þegar á líður að ekki þurfi að bíða mjög lengi með tillögur á útgjaldahlið ríkisfjármála. Það má koma með viðspyrnupakka og innspýtingu á þá hlið í fjáraukaformi. Ekkert í lögunum segir að fjáraukinn þurfi að bíða fram á haust, að það þurfi bara að vera einn fjárauki, og af því að það hefur verið í umræðunni að koma með fjárfestingarviðspyrnu hvet ég hæstv. ríkisstjórn til að koma sem fyrst með slíka pakka, miðla upplýsingum um þá og koma með þá inn í þingið. Við tökum við þeim hér og vinnum úr þeim öll sem einn maður. Ég er alveg fullviss um það.

Eins og ég segi hafa skynsamlegar tillögur verið nefndar í fyrstu atrennu og við munum sjá nánari útfærslu á þeim. Við höfum þegar séð vaxtalækkun hjá Seðlabankanum, séð dregið úr bindiskyldu og séð boðaðar aðgerðir varðandi sveiflujöfnunarauka sem auka lausafé í bönkunum til að gefa súrefni þeim fyrirtækjum sem lenda í vanda. Svo eru aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við höfum í huga og trúum því að þetta sé skammvinnt ástand sem kostar átak. Við stöndum efnahagslega vel og erum með sterkt heilbrigðiskerfi. Enginn fer í grafgötur með að þetta verður ekki auðvelt en við munum samstiga gera það sem gera þarf og meira en minna. Við eigum að hugsa allar ákvarðanir með hag heildarinnar og með réttlæti og skynsemi að leiðarljósi. Ég legg áherslu á það hér að óvissa veldur alltaf ákveðnu óöryggi. Allt sem dregur úr óvissu — og þar er upplýsingamiðlunin mjög mikilvæg og hvernig upplýsingum er komið á framfæri — hjálpar okkur öllum að halda okkur að verki. Það veitir ákveðna hugarró. Einstaklingur kann að missa sig í óviðráðanlegri heildarmynd en í heild ryðjum við þessum hindrunum úr vegi. Hver og einn þarf á því að halda að finna sig í sínu hlutverki og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að huga að þessu, halda áfram eins og hingað til með heilbrigði í forgangi og daglega miðlun upplýsinga og viðbragða. Þegar kemur að viðbrögðum á efnahagshliðinni þarf að sama skapi að upplýsa reglubundið og markvisst um allar þær aðgerðir sem við förum í og í því gildir meira en minna.