150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Þegar vá stendur fyrir dyrum, eins og nú er svo sannarlega, er mikilvægt að viðbrögð stjórnvalda séu bæði markviss og fumlaus. Þannig verða viðbrögðin að vera til að koma í veg fyrir meiri skaða en ella hefði orðið og til þess fallin að efnahagslífið, þessi svokölluðu hjól atvinnulífsins, komist sem fyrst á sinn eðlilega snúning eftir að váin er um garð gengin. Líklegt er að efnahagsleg áhrif af heimsfaraldrinum verði víðtæk um heim allan en Íslendingar búa svo vel að hafa greitt niður skuldir, byggt upp varasjóði og nú er atvinnuleysið reist á fleiri stoðum en bara fyrir nokkrum árum síðan.

Herra forseti. Blikur hafa verið á lofti allt síðasta ár um að efnahagslífið væri á leið ofan í öldudal eftir vandamál í flugrekstri, loðnubrest, fækkun í komum ferðamanna og síðar óvissu um framtíð álframleiðslu í Straumsvík. Á yfirstandandi þingi hefur Miðflokkurinn kallað eftir aðgerðum til að bregðast við ástandinu, til að mynda með myndarlegri lækkun tryggingagjalds en stjórnvöld áætluðu. Nú í vetur, ofan á allt þetta, höfum við þurft að takast á við afleiðingar af fádæma óveðri sem opinberaði okkur að innviðir raforku- og fjarskiptakerfis okkar væru alls ekki eins traustir og við mörg hver hugðum og kalla á viðamiklar aðgerðir. Og undanfarnar vikur, herra forseti, höfum við þurft að búa okkur undir loðnubrest annað árið í röð. Nú tökumst við á við kórónuveiruna sem virðist ætla að verða mikill skellur fyrir efnahag heimsins. Við þurfum síst af öllu að stjórnvöld séu ósýnileg í krísuástandi. Landsmenn þurfa á því að halda að stjórnvöld taki af skarið og komi með markvissar og fumlausar aðgerðir í samráði við þá sem máli skipta.

Við búum við þá staðreynd að staða þjóðarbúsins er almennt góð, skuldastaða ríkissjóðs góð og til staðar er verulegur erlendur gjaldeyrisforði. Við erum því vel í stakk búin til að takast á við tímabundinn vanda en við verðum að vanda til verka og ganga fumlaust til aðgerða.

Herra forseti. Ég fagna því að sumum ábendingum Miðflokksins, sem við nefndum þrístökk í þágu atvinnulífs, hefur ríkisstjórnin tekið vel. Þær ganga m.a. út á stórátak á þremur árum í uppbyggingu innviða, þar á meðal stórauknar samgönguframkvæmdir, nema hvað þar er ekki gengið nægilega langt að okkar mati. Önnur tillaga Miðflokksins gekk út á að bindiskylda bankanna yrði lækkuð og hefur Seðlabankinn nú lækkað hana myndarlega og er það vel. Þá fagna ég yfirlýsingum seðlabankastjóra um að hann útiloki ekki verulega lækkun vaxta til viðbótar þeirri vaxtalækkun sem þegar hefur verið tilkynnt. Þá hefur Miðflokkurinn einnig lagt til að minnka skattaáþján atvinnulífsins, að tryggingagjaldið verði lækkað strax um eitt prósentustig umfram áform stjórnvalda en þar yrði komið verulega á móts við þarfir atvinnulífsins sem hefur kallað eftir þessari aðgerð, lækkun tryggingagjalds, árum saman. Samstaða, skynsemi og rökhugsun, herra forseti, mun í erfiðum aðstæðum koma okkur best að gagni.