150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:00]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Frá síðasta hruni hefur verið talað um mikilvægi þess að búa í haginn fyrir næsta áfall til að við getum staðist álagið þegar það áfall brysti á. Nú er það komið og skiptir þá miklu máli að viðbrögðin einkennist af þekkingu og framtíðarsýn og séu til þess fallin að tryggja réttindi og öryggi borgaranna ásamt efnahagslegri framtíð Íslands. Það er tilhneiging þegar áföll skella á að týnast í skammtímahugsun og björgunaraðgerðum og á meðan björgunaraðgerðir eru gríðarlega mikilvægar þá er það einmitt á svona tímum sem við höfum tækifæri til að sýna styrkleikann og hugvitið sem við búum yfir með því að horfa líka til framtíðar. Markaðir landsins og heimsins skjálfa eins og Reykjanesið í dag. Verð er að hrynja, verðmæti að glatast og margar af undirstöðum landsins standa höllum fæti. Ef skilaboðin úr þessum sal eða úr Stjórnarráðinu eða Seðlabankanum eða hvaðan sem er úr stjórnkerfinu eru óskýr eða einkennast af hræðslu eða óðagoti er óumflýjanlegt að viðbrögðin í samfélaginu endurspegli það með frekari tilheyrandi áföllum fyrir íslenska þjóð. En ef við sendum skýr skilaboð um að við ætlum ekki bara að standa okkur vel heldur gefa í munu markaðir elta.

Forseti. Nú er tækifæri til að gera betur en við höfum gert í góðu árferði. Lykilskref í efnahagslegum aðgerðum er að flýta framkvæmdum sem myndu styðja við hagkerfið og búa til störf, t.d. með því að flýta uppbyggingu borgarlínunnar og með því að flýta framkvæmdum við byggingu nýs Landspítala. Þannig gætu einhverjir verkhlutar klárast í ár og væri það góð byrjun og í anda þess sem við höfum séð erlendis sem viðbrögð við Covid-19. Aðgerðirnar þurfa einnig að taka mið af þeim raunveruleika sem blasir við launafólki og bótaþegum í efnahagslegum þrengingum. Við ættum að leggja áherslu á að ljúka sanngjörnum og réttlátum kjarasamningum við þær stéttir sem enn eiga lausa kjarasamninga, sérstaklega þær sem vinna innan heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að auka verulega fjármagn í bótakerfin, einfalda skilyrðin og jafnvel afnema þau alveg.

En gleymum ekki í þessu öllu þörfinni á að halda áfram að vinna í átt að kolefnishlutleysi. Nú væri ágætt að fresta óskipulegum hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands af og þess í stað búa til meira svigrúm fyrir uppbyggingu umhverfisvænna sprotafyrirtækja. Þá mætti jafnframt hefja samstarf við innlend iðnaðarfyrirtæki sem hafa mikla framleiðslugetu um að búa til lækningatæki og búnað sem fer að skorta á heimsvísu. Almennt eigum við marga öfluga atvinnuvegi sem gætu hreinlega vaxið og dafnað vel undir núverandi kringumstæðum, hugverkaiðnaðurinn, tölvuleikir, hugbúnaður, kvikmyndagerð og svo fjölmargar greinar sem eru upp á sitt besta þegar hugvit Íslendinga fær tækifæri til að blómstra. Setjum aukið fjármagn í Tækniþróunarsjóð og styðjum við þær greinar sem geta sveiflað á móti samdrættinum sem við sjáum núna í ferðaþjónustunni.

Margt annað þarf að gera til að tryggja bæði stöðugleika hagkerfisins og styrkleika sjálfvirku jöfnunartækjanna, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, almannatryggingar eða burðir lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Við verðum að gera áþreifanlegar, skýrar og tímasettar áætlanir um hvernig við ætlum að bregðast við óumflýjanlegum afleiðingum þessa heimsfaraldurs.

Við horfum einnig fram á það að halli kunni að verða á ríkissjóði næstu ár en það er raunveruleiki sem þarf ekki að óttast. Skuldastaðan er lág og við höfum augljós tækifæri til að styrkja við íslenskt efnahagslíf með því að heimila frekari skuldsetningu ríkissjóðs. Ríkissjóður gegnir lykilhlutverki hér. Við verðum að tryggja að í þeirri efnahagslægð sem nú ríður yfir verði ekki gripið til viðamikilla aðhaldsaðgerða sem munu koma til með að kæla hagkerfið enn frekar. Við eigum að nota fjármuni til að styrkja efnahaginn og um leið nota þá peninga sem við höfum til þess að búa til betra samfélag og auka velsæld. Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf á því einmitt að ríkissjóður leiði sókn samfélagsins fram á við. Nú er tíminn til að snúa vörn í sókn og ekki einungis einblína á að bjarga því sem hægt er að bjarga heldur byggja upp, sækja fram og móta framtíðina.