150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[16:24]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér örstutt upp til að fagna sérstaklega þessari tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025. Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að forvarnir skuli byggjast á markvissri kennslu á öllum skólastigum í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar og kennslan grundvallist á gagnreyndri þekkingu sem hæfi aldri og þroska nemenda á hverju skólastigi.

Það er vel rakið í tillögunni hvernig þessi áætlun tengist ýmiss konar vinnu sem farið hefur fram á undanförnum árum og fer fram nú samhliða, m.a. er vísað til vitundarvakningarverkefnisins gegn ofbeldi 2012–2015. Ég tel að það hafi í rauninni umbylt umræðunni á þessu sviði í skólum. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta verkefni haldi nú áfram með markvissum hætti. Þessar tillögur og þessi vinna sé ég líka að er algjörlega í þeim anda sem unnið er að í viðamikilli vinnu að umbótum í málefnum barna. Þverpólitísk nefnd er m.a. að störfum þar sem gert er ráð fyrir að samþætta ýmiss konar forvarnavinnu og stuðning við börn og fjölskyldur þvert á heilsugæslu, skólastarf, frístundaheimili og félagsþjónustu.

Það sem lögð er mikil áhersla á og ég tel að skipti mjög miklu máli er að byrjað er á grunninum, sem er símenntunin. Það vill nefnilega oft gleymast í svona verkefnum að tryggja þarf að allir þeir sem starfa með börnum, hvort sem er í heilsugæslunni eða á mismunandi skólastigum, hafi tækifæri til að átta sig á því námsefni sem verið er að leggja fram og fái tækifæri til að setja verkefnið í stærra samhengi við aðra vinnu sem fram fer í samfélaginu. Á sama hátt er mjög mikilvægt að þarna er gert ráð fyrir að til verði aðgengilegt námsefni fyrir öll skólastigin því að það er mikilvægt að kennari og leiðbeinandi á hverjum tíma nái tökum á grunninum, en það er líka gott að hafa námsefnið til að geta leitt nemendur áfram. Ég tel að þegar unnið er með þessum hætti skapist alvörutækifæri til að breyta menningu og það er ætlunin með þessu verkefni. Eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra er kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni bæði afleiðing og orsök mismununar. Það er því lykill að jafnrétti að bæta úr.

Mig langar að nefna a.m.k. þrjár aðgerðir. Ein er aðgengi að námsefni og fræðsluefni. Þar er lagt til að allt námsefni sem til verður í tengslum við aðgerðaáætlunina verði gert aðgengilegt í leitarbrunni á vefsvæði Menntamálastofnunar. Það er einmitt það sem skort hefur á með undanfarandi verkefni og því mikilvægt að tekið sé afgerandi af skarið um að námsefninu verði safnað saman. Það er t.d. erfitt að finna núna námsefni sem hefur reynst vel og fræðslumyndir í tengslum við verkefnin Fáðu já, Stattu með þér og Leiðin áfram. Það er mikilvægt að það sé aðgengilegt alls staðar.

Svo langar mig að nefna verkefni A.7., sem er fræðsluátak um vernd kynferðislegrar friðhelgi. Það er eina verkefnið í rauninni sem gert er ráð fyrir að muni ná til alls samfélagsins. Hin eru öll bundin við ungmenni. Ég held að það sé mjög mikilvægt því að þó að það sé skýrt að forvarnir sem unnar eru með börnum og ungmennum skili mestum árangri þá getur í ákveðnum tilfellum verið mjög mikilvægt að vekja allt samfélagið til umhugsunar samhliða.

Mig langar svo að nefna sérstaklega, í tengslum við þróun námsefnis fyrir framhaldsskóla, og benda á að mikilvægt er í því sambandi að huga að sérstökum aðstæðum á heimavistum. Heimavistir eru sérstakt umhverfi og að því þarf að hyggja þegar samið er námsefni fyrir framhaldsskólastigið. Á sama hátt langar mig að nefna að í fræðsluefni í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi verði hugað sérstaklega að aðstæðum í ferðalögum, hvort sem það er í langferðabílum eða gistingu í skólastofum eða við einhverjar aðrar aðstæður. Þar eru oft uppi sérstakar aðstæður sem ungmenni er ekki vön dagsdaglega.

Að lokum langar mig að nefna að mikilvægt er að námsefnið sé hugsað fyrir alla hópa samfélagsins, þar á meðal börn og ungmenni af erlendum uppruna.

Það mætti lengi halda áfram og fara í gegnum þessar aðgerðir en þetta eru meginatriðin sem ég hafði áhuga á að koma að við fyrri umræðu. Eins og ég sagði í upphafi fagna ég þingsályktunartillögunni og styð það heils hugar að hún fái vandaða umfjöllun og afgreiðslu á yfirstandandi þingi