150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[16:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls undir þessari umræðu og þakka jákvæðar undirtektir. Ég vil segja að ég er hjartanlega sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, að ég held að þetta geti, ef við göngum vel frá þessu hér í þinglegri meðferð, orðið okkur til sóma og hvað þá þegar tillagan er komin til framkvæmda og við farin að sjá hana í verki í skólum og öðru tómstunda- og frístundastarfi.

Ég kom fyrst og fremst upp til að bregðast við þeirri ábendingu sem kom fram í máli hv. þingmanns sem talaði hér síðast. Það er rétt að þjóðkirkjan og önnur trúfélög voru ekki kölluð til. Hins vegar var haft samráð við æskulýðsstarf innan trúfélaga. KFUM og KFUK komu t.d. að undirbúningi og voru mjög öflug í undirbúningi þessarar tillögu, en ég tel að það gefist gott tækifæri til þess í meðförum hv. allsherjar- og menntamálanefndar að kalla fleiri til. Aðaláherslan, eins og ég kom að í framsöguræðu minni, er á skólana því að þar náum við til allra barna, en að sjálfsögðu er mikilvægt að önnur félög, t.d. trúfélög, geti nýtt sér þetta efni þannig að ég tel tilvalið að kalla þau til sem og fleiri aðila sem kunna ekki endilega að hafa verið með í undirbúningnum því að ég held að þetta efni sem við erum að tala um muni nýtast öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og þjóna því mikilvæga markmiði að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni í samfélagi okkar. Það er samfélagsleg meinsemd og kannski eitt það sem stendur einna helst í vegi fyrir því að við getum náð markmiði okkar um fullt jafnrétti kynjanna og við höfum sagt að við ætlum að ná því ekki seinna en árið 2030 undir formerkjum heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sem hv. þingmaður þekkir náttúrlega vel eftir þátttöku okkar á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. En það er enn langt í land, en þetta getur verið mikilvægur áfangi í að ná því markmiði.

Að öðru leyti þakka ég fyrir og vona að þingleg meðferð skili því að þingið ljúki afgreiðslu málsins á þessu þingi.