150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

upplýsingalög.

644. mál
[16:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir andsvarið. Ég vil í fyrsta lagi segja að við höfum verið að vinna að því að styrkja aðbúnað úrskurðarnefndarinnar með auknu mannahaldi og aldrei hafa fleiri úrskurðir verðið kveðnir upp. Hins vegar er málsmeðferðartíminn enn of langur því að það eru allmörg mál á borði nefndarinnar, það verður ekkert litið fram hjá því.

Hv. þingmaður spyr: Mun þetta lengja tímann? Í fyrsta lagi erum við að setja mjög þrönga tímafresti inn í frumvarpið. Í öðru lagi er þetta ekki víðtæk heimild. Ef við lítum til þeirra tilvika þar sem opinberir aðilar hafa verið að óska eftir því að fá þessar undanþágur hafa komið 30 beiðnir og aðeins verið fallist á tvær, af því að heimildin er þröng fyrir opinbera aðila. Við erum að leggja til sambærilega heimild fyrir einkaaðila í þessu tilviki en eigum ekki von á því að það hafi endilega nein skriðuáhrif á málsmeðferðartíma almennt og alls ekki málsmeðferðartíma nefndarinnar því að þetta snýst í raun bara um það sem gerist eftir að nefndin kveður upp úrskurð sinn.